Búið er að rífa Bláa turninn sem stóð við Háaleitisbraut en vika er liðin frá því að hann stórskemmdist í bruna. Þorgerður K. Halldórsdóttir, eigandi Bláa turnsins, segist ekki vita hvað tekur við en undanfarin þrettán ár hefur hún rekið söluturninn ásamt eiginmanni sínum.
Þegar eldurinn kom upp var dóttir Þorgerðar við afgreiðslu inni í söluturninum en slapp ómeidd út. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var þegar sent á vettvang og tók nokkurn tíma að ráða niðurlögum eldsins. Þá var þegar ljóst að húsnæðið var stórskemmt eftir brunann.
„Það er búið að rífa húsið en við eigum alveg eftir að taka ákvörðun um framhaldið,“ segir Þorgerður og bætir við að fjölskyldan sé um þessar mundir að taka ákvörðun um hvort fara eigi út í nýjan rekstur.
Hún segist enn ekki hafa jafnað sig almennilega eftir brunann. „Það tekur tíma. Maður er búinn að vera að standa í snúningum að undanförnu og það er mjög skrítið að mæta ekki í vinnuna,“ segir Þorgerður og bætir við að þó hún hafi verið sæmilega tryggð, með rekstrarstöðvunartryggingu, er nokkuð ljóst að tjónið fæst ekki að fullu bætt.