Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að hún telji að viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu sé sjálfhætt þegar sambandið sé komið í mál við okkur vegna Icesave-málsins.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætlar að fá aðild að málarekstri Eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi vegna Icesave málsins. Ragnheiður Elín segir á Facebook-síðunni sinni, að þetta hljóti að hafa áhrif á aðildarviðræðurnar.
„Framkvæmdastjórnin tekur undir kröfu ESA gegn Íslandi og tekur þar með undir málflutning gagnaðilans. Bent hefur verið ítrekað á tengsl Icesave og ESB umsóknarinnar - ESB hefur neitað því og sagst ekki bera ábyrgð á ummælum fulltrúa einstakra landa. Nú er framkvæmdastjórnin sjálf að taka afstöðu í þessu máli, halda menn virkilega að það hafi ekki áhrif á aðildarviðræðurnar? Ég segi fyrir mig - ég hef bara minna en engan áhuga á að vera í viðræðum við þann aðila sem stendur í málaferlum við okkur á öllum vígstöðvum.“