„Þegar hann [Tim Ward] kom á fund utanríkismálanefndar fyrir nokkru síðan og var að gera grein fyrir undirbúning málsvarnarinnar þá var það alveg ljóst að það yrði óskað eftir meðalgöngu af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins,“ segir Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis um fund sem nefndin átti með Tim Ward, aðalmálflutningsmanni Íslands í Icesave málinu, og bætir við „Þannig að það er ekkert sem kemur okkur á óvart í því.“
Árni Þór telur ekki að stjórnvöldum beri að andmæla kröfu framkvæmdarstjórnar ESB um meðalgöngu í málinu fyrir EFTA dómstólnum. „Við getum ekkert andmælt því, það er réttur þeirra að óska eftir meðalgöngu í málinu,“ segir Árni Þór en hann bendir á að ef að einhver aðildarríki EES-samningsins vilji styðja málstað Íslands þá geti íslensk stjórnvöld óskað eftir meðalgöngu þeirra í málinu. „Þessi meðalganga þýðir ekkert annað en það að þeir leggja inn sína afstöðu til málsins,“ segir Árni Þór.
Spurður hvort þetta setji ekki babb í bátinn fyrir aðildarviðræðurnar segir Árni Þór: „Það munu áreiðanlega einhverjir leggja það út á þann hátt en burtséð alveg frá aðildarviðræðunum þá er þetta mál sem þarf að hafa sinn gang fyrir dómstólum og það er réttur vettvangur að útkljá það þar.“