Stofnvísitala þorsks hefur hækkað fimmta árið í röð samkvæmt niðurstöðum stofnmælingar Hafrannsóknastofnunar á botnfiskum sem fram fór nýverið og hefur ekki verið hærri frá árinu 1985. Fram kemur að hækkun vísitölunnar undanfarin ár megi einkum rekja til þess að æ meira hafi fengist af stórum þorski og hefur sú þróun haldist áfram í ár.
„Meðalþyngd þorsks eftir aldri hefur farið hækkandi undanfarin ár og er nú um og yfir meðaltali hjá flestum aldurshópum. Við sunnanvert landið var holdafar þorsks (slægð þyngd miðað við lengd) með því besta sem verið hefur frá 1993, þegar vigtanir hófust. Fyrir norðan var þorskur í betri holdum og lifrarmeiri en verið hefur frá 1996,“ segir í niðurstöðunum.
Þá kemur fram að stofnvísitala ýsu hafi hækkaði verulega á árunum 2001-2005 en hafi hins vegar farið ört lækkandi næstu fimm árin þar á eftir. Ýsan hafi nú veiðst á landgrunninu allt í kringum landið en meira hafi hins vegar fengist af henni fyrir norðan land en sunnan. Það sé breyting sem hafi átt sér stað undanfarin ár en á hinn bóginn hafi alltaf fengist mun meira af ýsu fyrir sunnan landið.
„Vísitala lúðu í vorralli hrundi á árunum 1986-1990 og hefur haldist lág síðan. Aldrei hefur fengist eins lítið af lúðu í vorralli og síðustu tvö ár og stofnvísitalan nú er um 40 sinnum lægri en árin 1985-1986,“ segir ennfremur. Stofnvísitala skarkola mældist hins vegar svipuð nú og undanfarinn áratug.
Hins vegar kemur fram að vísitala gullkarfa hafi farið hækkandi frá árinu 2008 og hafi nú mælst sú hæsta frá 1985. Þá sé stofnvísitala ufsa hærri en undanfarin fimm ár en þó ekki jafn há og á árunum 2004-2006. Vísitala steinbíts var á hinn bóginn lág líkt og tvö undanfarin ár.
Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum, svonefnt vorrall, fór fram dagana 28. febrúar til 15. mars og tóku fimm fiskiskip þátt í verkefninu auk rannsóknarskipanna Árna Friðrikssonar og Bjarna Sæmundssonar.