Ríkissaksóknari hefur enn ekki tekið ákvörðun um hvort líkamsræktarþjálfarinn Egill Einarsson og unnusta hans verði ákærð fyrir nauðgun. Málið bíður enn afgreiðslu um sinn, að því er Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sem hefur málið til meðferðar, segir í svari við fyrirspurn mbl.is.
Mál Egils kom að nýju til ríkissaksóknara í lok febrúar síðastliðnum, en það hafði áður verið sent lögreglu til frekari rannsóknar. Í samtali við fréttavef Morgunblaðsins, mbl.is, 1. mars sl. sagði Hulda Elsa að samkvæmt verklagsreglum væri reynt að afgreiða mál innan mánaðar. "[E]n við höfum ekki getað fylgt þeirri reglu um langa hríð."
Kærur frá tveimur stúlkum bárust lögreglu á síðasta ári og báru þær við að hann hefði nauðgað þeim. Egill hefur frá upphafi haldið fram sakleysi sínu, m.a. í yfirlýsingum sem sendar hafa verið fjölmiðlum. Þar segir hann að um opinbera aðför gegn sér sé að ræða.