ArtMedica, sem sérhæfir sig í tæknifrjóvgunum, sendi Guðbjörgu Erlu Ragnarsdóttur, sem missti eiginmann sinn úr krabbameini í mars, reglugerð sem er ekki lengur í gildi þegar hún spurði hvers vegna sæði manns hennar hefði verið eytt eftir að hann lést.
Guðbjörg Erla sagði sögu sína í Kastljósi í kvöld. Jón Björn Marteinsson, eiginmaður hennar, lést mars, en hann hafði barist við krabbamein í átta ár. Meðan á veikindunum stóð reyndu Guðbjörg og Jónbi, eins og Jón Björn var jafnan kallaður, tvisvar að eignast barn með tæknifrjóvgun. Það tókst ekki og telur Guðbjörg það megi kenna álagi sem fylgdi veikindum Jónba.
Þau ætluðu að reyna aftur á síðasta ári, en þá fékk Guðbjörg þau svör að hún væri of þung og þyrfti að létta sig. Guðbjörg segir að hún og Jónbi hafi rætt um að hún myndi reyna að eignast barn ef hann myndi deyja. Hún hafi því ákveðið að láta á þetta reyna eftir að hann lést. Hún fékk hins vegar þær upplýsingar hjá ArtMedica að sæði hans hefði verið eytt.
Guðbjörg óskaði eftir skriflegum upplýsingum frá fyrirtækinu um hvers vegna þetta hefði verið gert. Hún sagði í samtali við mbl.is að ArtMedica hefði sent sér reglugerð frá árinu 1997 um tæknifrjóvganir (568/1997). Í reglugerðarsafni stjórnarráðsins segir hins vegar að þessi reglugerð sé „brottfallin“ og að ný reglugerð hafi verið gefin út árið 2009.
Í eldri reglugerðinni, sem ekki er lengur í gildi, segir: „Andist sá sem lagði til kynfrumurnar skal eyða ónotuðum kynfrumum, nema tilgangur geymslunnar hafi verið gjöf kynfrumna til notkunar við tæknifrjóvgun.“
Ekkert slíkt ákvæði er hins vegar að finna í reglugerðinni frá árinu 2009 sem nú er í gildi. Þar segir aðeins að hámarksgeymslutími kynfruma sé 10 ár og „eigendum geymdra fósturvísa og eigendum kynfrumna [skuli] í upphafi geymslutíma gerð grein fyrir reglum um hámarksgeymslutíma munnlega og skriflega.“
Á heimasíðu ArtMedica er að finna vísun í reglugerðina frá árinu 1997 sem fallin eru úr gildi. Á heimasíðunni segir jafnframt um karlmenn sem greinast með krabbamein: „Karlmönnum sem greinast með krabbamein stendur til boða frysting á sæðisfrumum. Sæðisfrumur eru geymdar í allt að fimm ár, í sumum tilfellum lengur.“
Guðbjörg Erla segist afar ósátt við að sæðinu skuli hafa verið eytt. Það hafi verið einlæg ósk hennar og Jónba að eignast barn. Það hafi verið sér gríðarlegt áfall að komast að því að búið væri að eyða sæðinu.
Ekki náðist í forsvarsmenn ArtMedica í kvöld.