Bæjarstjórn Kópavogs felldi á dögunum tillögu fulltrúa Næstbesta flokksins um að styrkja langhlauparann Kára Stein Karlsson um eina milljón vegna undirbúnings fyrir þátttöku á Ólympíuleikum í sumar. Fulltrúi Samfylkingar benti á, að Sjálfstæðisflokkur hefði lagt fram sömu tillögu í minnihluta og hann felldi nú.
Hjálmar Hjálmarsson, fulltrúi Næstbesta flokksins, lagði tillöguna fram og var óskað eftir nafnakalli um afgreiðslu hennar. Tillagan var felld með sjö atkvæðum en tveir greiddu atkvæði með henni og einn sat hjá.
Allir fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði gegn tillögunni. Af því tilefni óskaði Guðríður Arnardóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar, sem sjálf sat hjá við afgreiðsluna, að bókað yrði: „Ég bendi á að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu þessa sömu tillögu fram þegar þeir voru í minnihluta. Nú fella þeir hana þegar þeir raunverulega geta unnið henni fylgi. Hér játar Sjálfstæðisflokkurinn á sig „popúlisma“ að hætti íhaldsins og tillöguflutningur þeirra var einungis til þess fallinn að kaupa vinsældir.“
Þá greindi hún frá því, að hún sæti hjá þar sem Kári Steinn hafi þegar fengið hálfa milljón króna í styrk frá Kópavogsbæ.