„Hefði sótt um aðild að breska heimsveldinu“

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Nú þegar að ESB ætlar með blygðunarlausum hætti að beita sér gegn okkur. Með aðferðum sem eiga sér engin fordæmi þá heyrist ekkert, ekkert frá forystumönnum ríkisstjórnarinnar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á heimasíðu sinni og vísar þar til kröfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að fá aðild að málarekstrinum gegn Íslandi vegna Icesave-málsins fyrir EFTA-dómstólnum.

Guðlaugur segir að undirlægjuháttur ríkisstjórnarinnar í þessum efnum sé alger. Hún hafi ekki gripið til varna í Icesave-málinu og aldrei talað máli þjóðarinnar við samningaborðið eða í erlendum fjölmiðlum.

„Hótunum ýmissa forystumanna ESB vegna eðlilegra veiða okkar á makríl innan okkar eigin lögsögu er mætt með vandræðalegri þögn,“ segir hann ennfremur og bætir því við að ætlunin sé að halda áfram að reyna að koma Íslandi inn í ESB eins og ekkert hafi í skorist.

„Ef núverandi ríkisstjórn hefði verið við völd í síðasta þorskastríði þá hefði hún örugglega sótt um aðild að breska heimsveldinu!“ segir Guðlaugur síðan að lokum og vísar þar til umsóknarinnar um aðild að ESB.

Heimasíða Guðlaugs Þórs Þórðarsonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert