Hótelið við slippinn vinsælt

Icelandair hótel Reykjavík Marina er nú að bætast við hótelflóru borgarinnar en það er sérstakt fyrir þær sakir að það rís í námunda við gamla slippinn í Reykjavíkurhöfn. MBL Sjónvarp leit í heimsókn en mikið er lagt upp úr hönnun og útliti herbergjanna 108 á hótelinu sem er nánast fullbókað frá opnun og út sumarið.

Um 60 manns vinna nú hörðum höndum við að leggja lokahönd á hótelið en þrátt fyrir að það opni á miðvikudag í næstu viku er enn mikið ógert en mikið er smíðað annarsstaðar og flutt á staðinn. 

Húsið var áður skrifstofuhúsnæði þar sem Viðskiptablaðið var meðal annars til húsa en eftir hrun segja eigendur hússins þeir Einar Ágústsson og Jens Sandholt að hafi orðið erfiðara að leigja húsið út sem skrifstofuhúsnæði. Árið 2009 var því sótt um að breyta því í hótel en hótelið verður Icelandair hótel en markaðssvið fyrirtækisins sá mikil tækifæri í því að byggja hótel við Slippinn sem setur mikinn svip á herbergin sem vísa í Norður og gestirnir geta fylgst með þegar skipin eru dregin upp í slippinn þar sem gert er að þeim.

Bókanir ganga vel

En það er ekki bara Icelandair sem sér sjarmann í því að vera með hótelið staðsett þarna þar sem hótelið er nánast fullbókað frá fyrsta opnunardegi og út sumarið. En herbergin eru hönnuð með yngri aldurshópa í huga sem eru að heimsækja Reykjavík og sækja viðburði eins og Icelandairwaves. Mikið er lagt upp úr hönnun herbergjanna 108 eins og sést á þessum myndum og ýmislegt er óvanalegt í herbergjunum t.a.m. eru svokölluð fjölskylduherbergi með kojum þar sem lagt er upp með að koma til móts við þarfir fjölskyldufólks. En þarna verður líkamsræktarsalur, bíósalur, bar og veitingastaður. 

Nánar er fjallað um hótelið í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert