„Hvar eru peningarnir, Jóhanna?“

Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Hægri grænna.
Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Hægri grænna. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Hægri grænir, flokkur fólksins, harmar þann frest sem hefur orðið á endurgreiðslu vegna ólöglegra gengislána til íslenskra heimila. Nú eru 8 vikur liðnar síðan gengislánadómur féll í Hæstarétti og ekki 1 króna hefur verið borguð til baka.

Í tilkynningu frá samtökunum, sem formaður þeirra, Guðmundur Franklín Jónsson, skrifar undir er rifjað upp að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, skrifaði í aðsendri grein í Fréttablaðið þann 17. febrúar síðastliðinn að eitt helsta viðfangsefni ríkisstjórnar og Alþingis allt frá hruni hefði verið að leita leiða til að verja heimili landsins fyrir afleiðingum hrunsins. „Ekkert er til í þessari staðhæfingu, og allar lausnir ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur á skuldavanda heimilanna hafa verið eitt klúður,“ segir í tilkynningu Hægri grænna.

„Hægri grænir hvetja Jóhönnu til þess að bretta upp ermarnar, standa í lappirnar og þrýsta á bankana til að borga strax til baka þá ólögmætu okurvexti sem þeir veittu sjálfum sér, teknir ófrjálsri hendi á kostnað heimilanna með hjálp ríkisstjórnarinnar. Hvar eru peningarnir, Jóhanna Sigurðardóttir?“ Segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert