Ég held með íslenska landsliðinu í fótbolta, handbolta, skíðum, skák et cetera – en ég skil ekki þennan hávaða útaf ESB og Icesave. Evrópusambandið heldur vel utan um hagsmuni þeirra ríkja sem það mynda. Eru það tíðindi? Það sýnist mér ekki – heldur einmitt ein af ástæðunum fyrir því að Íslendingar eiga að gerast aðilar,“ skrifar Mörður Árnason á bloggsíðu sína.
„Viðbrögð sem stungið er upp á núna – að hætta viðræðunum við Evrópusambandið eða fresta þeim af þessu tilefni – bíðum við: Voru það ekki einmitt okkar forystumenn, úr öllum flokkum, sem lýstu því yfir að Icesave-málið og aðildarumsóknin væru óskyld mál? Ætlum við núna að tengja þau saman? Kannski makrílinn líka til að allt fari í hnút alstaðar og endurreisnin stöðvist örugglega fyrir kosningar?“ spyr Mörður.
„Reyndar sagði samningamaður Íslands, Tim Ward, fyrir um einmitt þessa atburðarás á fundi utanríkismálanefndar – og fagnaði henni að sumu leyti þar sem vörnin yrði auðveldari.
Aðalmálið hér er auðvitað það að þeir sem völdu dómstóla umfram samninga – meirihluti þjóðarinnar – verða að gjöra svo vel sætta sig við torfærurnar á þeirri leið.
Við skulum svo sameinast öll í vörn fyrir íslenska hagsmuni – en ekki vera að væla yfir sjálfsögðum hlutum,“ skrifar Mörður.