„Í Icesave-málinu vorum við Íslendingar beittir miklum þrýstingi frá ESB og einstökum ríkjum þess til að fallast á kröfur Breta og Hollendinga. Sérstaklega átti þetta við árin 2008 og 2009 þegar við sóttumst eftir lánafyrirgreiðslum,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á samskiptavefnum Facebook í kvöld.
En í gær kom í ljós að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætlar að krefjast þess að fá aðild að málarekstrinum gegn Íslandi vegna Icesave-málsins fyrir EFTA-dómstólnum.
Bjarni segir að þegar kvartað hafi verið undan þessum þrýstingi var ávalt sagt að hér hlyti að vera misskilningur á ferð því Evrópusambandið liti svo á að um væri að ræða tvíhliða deilu sem það myndi ekki skipta sér af.
„Nú er komið í ljós að það voru tóm ósannindi. Með bréfi ESB til EFTA-dómstólsins segir að ESB hafi beina hagsmuni af úrslitum málsins. Hvað stendur nú eftir af yfirlýsingum Stefans Fühle um að Icesave-deilan sé aðeins tvíhliða,“ spyr Bjarni og heldur áfram „voru einhver heilindi að baki aðkomu ESB að hinum „sameiginlegu viðmiðum“? Hvers vegna í ósköpunum eru stjórnarliðar að bera blak af ESB í þessu máli?“
Sjá má vefsíðu Bjarna Benediktssonar á samskiptavefnum Facebook hér.