Segir ESB vilja Íslendinga niður á hnén

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þessi ósvífna aðkoma Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nú kórónar hins vegar allt,“ segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, á heimasíðu sinni um þá ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB að fara fram á aðild að dómsmálinu gegn Íslendingum fyrir EFTA-dómstólnum vegna Icesave-málsins.

Ögmundur segir að í raun þurfi þetta ekki að koma á óvart. Líklegt sé að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafi haft samráð við framkvæmdastjórn ESB áður en hún ákvað að höfða mál gegn Íslandi fyrir dómstólnum. Hann veltir því síðan fyrir sér hvað kunni að vaka fyrir ESB og hvort það sé hugsanlega að reyna að slíta viðræðunum við Íslendinga um aðild að sambandinu.

„Eða er það kannski þannig - sem ég held að sé líklegra - að því aðeins vilji ESB okkur inn í sambandið að áður verðum við komin á hnén. Að því hallast ég. En ætlum við þangað niður? Niður á hnén?“ spyr Ögmundur og segir að það verði að sjálfsögðu ekki. 

Hann segir að vonandi þurfi Íslendingar ekki að þola fleiri blaðagreinar þar sem því sé haldið fram „að því lengur sem gaufað er við samningsgerðina við ESB“ því vandaðri verði niðurstaðan og virðist þar ekki síst beina spjótum sínum að Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra.

„Nú þarf að færa efnislegar niðurstöður upp á borðið hið allra fyrsta og í ljósi þess sem þar gefur að líta ákveður þjóðin hvort hún vill inn í Evrópusambandið. Ekki sakar að hafa nú fengið að kynnast réttarvitund Framkvæmdastjórnar ESB! Á sinn hátt er það efnisleg niðurstaða,“ segir Ögmundur að lokum.

Heimasíða Ögmundar Jónassonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka