Trefjar og Ragnar Axelsson hlutu verðlaun

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/Golli

Fyrirtækið Trefjar hlutu í dag útflutningsverðlaun forseta Íslands og ljósmyndarinn Ragnar Axelsson hlaut sérstaka heiðursviðurkenningu. Sú viðurkenning er veitt einstaklingi sem þykir með starfi sínu hafa borið hróður Íslands víða um heim og þannig stuðlað að jákvæðu umtali um land okkar og þjóð.

Ragnar, eða RAX eins og hann er almennt kallaður, hefur um árabil myndað líf fólks hér á Íslandi og á öðrum eyjum í Norður Atlantshafi og þau óblíðu náttúruöfl sem móta lífshætti þess og venjur. Myndir hans hafa birst í blöðum og tímaritum um allan heim og bækur hans Andlit Norðursins og Veiðimenn Norðursins hafa einnig verið gefnar út á mörgum tungumálum. Má með sanni segja að verk Ragnars hafi kastað jákvæðu ljósi á land okkar og þjóð, segir í tilkynningu. Ragnar starfar sem ljósmyndari á Morgunblaðinu.

Trefjar ehf fær verðlaunin fyrir þá forystu sem fyrirtækið hefur sýnt í þróun og smíði báta úr trefjaplasti til fiskveiða. Það var Auðunn N. Óskarsson framkvæmdastjóri sem veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd fyrirtækisins.

Á tímum þegar almennur framleiðsluiðnaður hefur átt undir högg að sækja hér á landi hafa Trefjar sótt fram og leitað markaða innanlands og erlendis fyrir framleiðsluvörur sínar og sýnt lofsvert frumkvæði í markaðsfærslu og vöruþróun. Trefjar framleiða gæðavörur sem eiga greiðan aðgang inn á alþjóðlegan markað og er fyrirtækið góð fyrirmynd fyrir þann fjölda fyrirtækja sem byggja framleiðslu sína á íslenskri þekkingu og reynslu á sviði fiskveiða og fiskvinnslu, segir í tilkynningu.

Útflutningsverðlaunin voru fyrst veitt árið 1989.

Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni: Þórunn Sveinbjörnsdóttir frá Alþýðusambandi Íslands, Ingjaldur Hannibalsson frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Björgólfur Jóhannsson frá Landsnefnd Alþjóða verslunarráðsins, Örnólfur Thorsson frá embætti forseta Íslands og Friðrik Pálsson frá Íslandsstofu, en Íslandsstofa ber ábyrgð á undirbúningi og kostnaði við verðlaunaveitinguna.

Ragnar Axelsson.
Ragnar Axelsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert