Bætir ekki andrúmsloftið

Steingrímur J. Sigfússon ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur.
Steingrímur J. Sigfússon ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 kom fram að Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir þátttöku framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Icesave-málinu vera pólitískt mál, því sambandið taki afstöðu gegn Íslandi. Þá segir hann þessa framkomu ekki vera til þess fallna að bæta andrúmsloftið í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur farið fram á þátttöku í málarekstri Eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi vegna Icesave-deilunnar. Mun því framkvæmdastjórnin styðja Eftirlitsstofnun EFTA í málinu. Segir Steingrímur þetta ekki koma sér á óvart.

„Auðvitað er þetta líka pólitískt mál og Evrópusambandið gengur þarna formlega í lið og tekur afstöðu gegn Íslandi. Og það er auðvitað pólitískt mál sem ég verð að segja að Evrópusambandið hefði vel mátt láta vera mín vegna. Mér finnst það býsna fruntalegt að láta sér ekki nægja að einstök aðildarríki, eins og kannski Bretar og Hollendingar, sem við bjuggum okkur alveg undir að myndu reyna að fara inn í málið, að þeir geri það. En að Evrópusambandið sem blokk skuli stilla sér svona upp það finnst mér býsna svert pólitískt og það svona bætir ekki stemninguna svo vægt sé til orða tekið," segir Steingrímur í sjónvarpsviðtali í kvöldfréttum stöðvar 2.

Segir hann jafnframt að á næstu vikum muni reyna á hvort makríldeila Íslendinga við Evrópusambandið tefji fyrir opnun samningskafla um sjávarútveg.

„Ef það gerist, þá verður það í viðbót mjög alvarlegur atburður og þá er komið enn eitt korn í mælinn,“ sagði Steingrímur og bætti við að andrúmsloftið í aðildarviðræðum Íslendinga við Evrópusambandið skipti miklu máli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert