Brown skuldar þjóðinni afsökun

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson. Reuters

„Það styrkti íslensku þjóðina að átta sig á því að kreppan bar ekki einungis með sér fjárhagslega og efnahagslega breytingar, heldur voru þær líka félagslega, stjórnarfarslega og jafnvel réttarfarslegar.“ Þetta segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í viðtali við bandarísku fréttasíðuna The Business Insider International.

„Ef hrun fjármálakerfis getur komið einu stöðugasta og þróaðasta lýðveldi heims á kné, hvernig gæti þá farið fyrir löndum sem búa við minni stöðugleika í stjórnarfari?“ spyr Ólafur Ragnar í viðtalinu.

Þar segir að fjármálakreppan hér á landi hafi verið persónuleg á ýmsan hátt fyrir forsetann. Hann hafi hvatt og stutt íslenska útrásarvíkinga og að kreppan hafi verið sársaukafull áminning um að þrátt fyrir allt sé Ísland lítil og einangruð þjóð. Íslendingum hafi gengið vel að vinna sig í gegnum vandann og ástandið hér er borið saman við ýmis Evrópulönd eins og Grikkland, Ítalíu og Spán.

Ólafur Ragnar segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi hugsanlega lært meira af veru sinni á Íslandi og afskiptum sínum af fjármálum landsins en öfugt.

„Þetta var afskaplega erfitt“

Í viðtalinu eru Icesave málin reifuð og sú ákvörðun forsetans að neita að skrifa undir Icesave lögin með þeim afleiðingum að þau voru tvisvar sinnum borin undir þjóðaratkvæði. „Þetta var afskaplega erfitt,“ segir Ólafur um þessar ákvarðanir sínar. „Allar stórar fjármálastofnanir, bæði í Evrópu og hér heima voru mér andsnúnar vegna þessa. Sterk öfl á Íslandi og í Evrópu töldu þessa ákvörðun mína hreinustu vitleysu.“

Ákvörðunin var umdeild og hefur dregið margvíslegan dilk á eftir sér. Fyrir forsetann snýst þetta um söguna. „Evrópa ætti að snúast meira um lýðræði heldur en fjármálamarkaðina. Mér fannst ég verða að velja lýðræðið.“

Brown skuldar afsökunarbeiðni

Hann segist ósáttur við framgöngu Breta í þessu máli og nefnir þar Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra og segir hann skulda Íslendingum afsökunarbeiðni. Hann líkir ástandinu við Falklandseyjastríðið og segir það hafa verið „stórfellda móðgun“ að líkja einu friðsamasta ríki veraldar, stofnríki NATO og einum helsta bandamanni Breta í heimsstyrjöldinni síðari við al-Qaeda og Talibana með því að setja Ísland á lista yfir hryðjuverkaríki.

Hann segir Ísland ekki hafa átt um marga kosti að velja. „Ef við berum saman efnahagsreikning Íslands og Bretlands og yfirfærum þá upphæð sem bresk yfirvöld kröfðust af Íslendingum, þá væri það sambærilegt við að biðja breska skattþegna um að bera ábyrgð á 800 milljörðum punda.“

Beygir sig undir vilja þjóðarinnar

„Norðurheimskautið er orðið eitt mikilvægasta svæði heims á margan hátt,“ segir Ólafur Ragnar í viðtalinu. Hann segist hyggja á áframhaldandi þátttöku í ýmsum málaflokkum og ef að meirihluti þjóðarinnar vilji að hann sitji áfram sem forseti, þá muni hann beygja sig fyrir því. En ef það verður ekki þannig, þá er það í besta lagi mín vegna.“

Viðtalið við Ólaf Ragnar á The Business Insider International

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka