Brown skuldar þjóðinni afsökun

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson. Reuters

„Það styrkti ís­lensku þjóðina að átta sig á því að krepp­an bar ekki ein­ung­is með sér fjár­hags­lega og efna­hags­lega breyt­ing­ar, held­ur voru þær líka fé­lags­lega, stjórn­ar­fars­lega og jafn­vel réttar­fars­leg­ar.“ Þetta seg­ir Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son, for­seti Íslands, í viðtali við banda­rísku frétt­asíðuna The Bus­iness Insi­der In­ternati­onal.

„Ef hrun fjár­mála­kerf­is get­ur komið einu stöðug­asta og þróaðasta lýðveldi heims á kné, hvernig gæti þá farið fyr­ir lönd­um sem búa við minni stöðug­leika í stjórn­ar­fari?“ spyr Ólaf­ur Ragn­ar í viðtal­inu.

Þar seg­ir að fjár­málakrepp­an hér á landi hafi verið per­sónu­leg á ýms­an hátt fyr­ir for­set­ann. Hann hafi hvatt og stutt ís­lenska út­rás­ar­vík­inga og að krepp­an hafi verið sárs­auka­full áminn­ing um að þrátt fyr­ir allt sé Ísland lít­il og ein­angruð þjóð. Íslend­ing­um hafi gengið vel að vinna sig í gegn­um vand­ann og ástandið hér er borið sam­an við ýmis Evr­ópu­lönd eins og Grikk­land, Ítal­íu og Spán.

Ólaf­ur Ragn­ar seg­ir að Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn hafi hugs­an­lega lært meira af veru sinni á Íslandi og af­skipt­um sín­um af fjár­mál­um lands­ins en öf­ugt.

„Þetta var af­skap­lega erfitt“

Í viðtal­inu eru Ices­a­ve mál­in reifuð og sú ákvörðun for­set­ans að neita að skrifa und­ir Ices­a­ve lög­in með þeim af­leiðing­um að þau voru tvisvar sinn­um bor­in und­ir þjóðar­at­kvæði. „Þetta var af­skap­lega erfitt,“ seg­ir Ólaf­ur um þess­ar ákv­arðanir sín­ar. „All­ar stór­ar fjár­mála­stofn­an­ir, bæði í Evr­ópu og hér heima voru mér and­snún­ar vegna þessa. Sterk öfl á Íslandi og í Evr­ópu töldu þessa ákvörðun mína hrein­ustu vit­leysu.“

Ákvörðunin var um­deild og hef­ur dregið marg­vís­leg­an dilk á eft­ir sér. Fyr­ir for­set­ann snýst þetta um sög­una. „Evr­ópa ætti að snú­ast meira um lýðræði held­ur en fjár­mála­markaðina. Mér fannst ég verða að velja lýðræðið.“

Brown skuld­ar af­sök­un­ar­beiðni

Hann seg­ist ósátt­ur við fram­göngu Breta í þessu máli og nefn­ir þar Gor­don Brown, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra og seg­ir hann skulda Íslend­ing­um af­sök­un­ar­beiðni. Hann lík­ir ástand­inu við Falk­lands­eyja­stríðið og seg­ir það hafa verið „stór­fellda móðgun“ að líkja einu friðsam­asta ríki ver­ald­ar, stofn­ríki NATO og ein­um helsta banda­manni Breta í heims­styrj­öld­inni síðari við al-Qa­eda og Talib­ana með því að setja Ísland á lista yfir hryðju­verka­ríki.

Hann seg­ir Ísland ekki hafa átt um marga kosti að velja. „Ef við ber­um sam­an efna­hags­reikn­ing Íslands og Bret­lands og yf­ir­fær­um þá upp­hæð sem bresk yf­ir­völd kröfðust af Íslend­ing­um, þá væri það sam­bæri­legt við að biðja breska skattþegna um að bera ábyrgð á 800 millj­örðum punda.“

Beyg­ir sig und­ir vilja þjóðar­inn­ar

„Norður­heim­skautið er orðið eitt mik­il­væg­asta svæði heims á marg­an hátt,“ seg­ir Ólaf­ur Ragn­ar í viðtal­inu. Hann seg­ist hyggja á áfram­hald­andi þátt­töku í ýms­um mála­flokk­um og ef að meiri­hluti þjóðar­inn­ar vilji að hann sitji áfram sem for­seti, þá muni hann beygja sig fyr­ir því. En ef það verður ekki þannig, þá er það í besta lagi mín vegna.“

Viðtalið við Ólaf Ragn­ar á The Bus­iness Insi­der In­ternati­onal

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert