„Það er náttúrulega stórfurðulegt að ekki skuli vera haldinn fundur fyrr en kvöldið áður en fresturinn til að skila þessu rann út og þá einungis af tilviljun. Því fundur hefði ekki verið haldinn nema vegna þess að við heyrðum af þessu í fréttum og báðum um fund,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Í dag sendu íslensk stjórnvöld frá sér svar við álitsumleitan forseta EFTA-dómstólsins á beiðni framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um leyfi til meðalgöngu í Icesave-málinu. Kemur fram í svari stjórnvalda að hagsmunum Íslands sé best þjónað með því að leggjast ekki gegn meðalgöngu Evrópusambandsins.
Sigmundur Davíð segir það augljóst, í ljósi þess að tilviljun ein réð því að málið komst upp, að aðkoma nefndarmanna í utanríkismálanefnd Alþingis, að svari stjórnvalda til EFTA-dómstólsins, væri ekki óskað.
„Í sjálfu sér er aðalatriðið ekki hvort menn mótmæli sérstaklega við EFTA-dómstólinn heldur það að menn mótmæli við sjálft Evrópusambandið,“ segir Sigmundur Davíð en eðlilegt væri að slík mótmæli kæmu frá ríkisstjórninni, einkum forsætisráðherra og utanríkisráðherra.
„Mér heyrist það á svörum þeirra,“ segir Sigmundur Davíð aðspurður hvort ekki sé ólíklegt að ríkisstjórn Íslands mótmæli framgöngu Evrópusambandsins í þessu máli.