Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir afar brýnt að þingheimur allur ræði nú alvarlega stöðu aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið í ljósi þess að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur farið fram á að fá aðild að málarekstri Eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi vegna Icesave-málsins.
„Það er orðið áríðandi að ræða stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Í talsvert langan tíma höfum við verið með beiðni á þinginu um að fá það inn á dagskrá þingsins,“ segir Bjarni og bætir við að tilefni slíkra viðræðna hafi að undanförnu verið að safnast upp.
Þá segir Bjarni mál þetta vera enn eitt dæmi þess hve nauðsynlegt sé að ræða aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið og þá hvort ekki beri að gera hlé á þeim uns farið hafi verið yfir málið frá grunni.