Ekkert staðist sem stjórnvöld hafi sagt

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur með þessu kastað grímunni og stillt sér upp með beinum hætti með ósanngjörnum kröfum á hendur íslenska ríkinu í Icesave málinu, ósanngjörnum kröfum sem íslenska þjóðin hefur tvívegis hafnað skýrt og greinilega í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í grein á heimasíðu sinni í dag. 

Í greininni fer Sigmundur yfir sögu umsóknarinnar um aðild að Evrópusambandinu eins og hún sér við honum og samskiptin við sambandið vegna Icesave-málsins og makríldeilunnar. „Það er allt undarlegt við Evrópusambandsumsókn Íslands,“ segir hann og bendir meðal annars á að á sama tíma og íslensk stjórnvöld þvertaki fyrir að aðlögunarferli að ESB sé í gangi „berast ályktanir frá Evrópuþinginu um mikilvægi þess að herða enn á aðlöguninni.“

Hann bendir á að umsókn um aðild að ESB hafi átt að ganga hratt fyrir sig og stuðla að styrkingu krónunnar og aukinnar fjárfestingar. Þvert á móti hafi gengi krónunnar fallið og fjárfesting verið í sögulegu lágmarki. Samtímis hafi efnahagsvandræði ESB verið í algleymingi.

Sigmundur segir vaxtamun á milli einstakra evruríkja margfaldan en engu að síður sé íslenskum almenningi lofað lægri vöxtum með upptöku evru. „Könnun ESB á matvælaverði í álfunni sýndi að matvælaverð væri orðið einna lægst á Íslandi, einkum verð landbúnaðarvörum. Samt er almenningi á Íslandi lofað lægra matvælaverði með inngöngu í ESB.“

Þá sé Íslendingum lofað undanþágum í sjávarútvegi þrátt fyrir að slíkt gengi gegn grundvallarreglum Evrópusambandsins og hafi ekki staðið öðrum stærri ríkjum til boða. „Skilningurinn á mikilvægi fiskveiða fyrir Íslendinga er svo mikill að hófsömum kröfum Íslendinga um veiðar [á makríl] í eigin lögsögu er mætt með hótunum um refsiaðgerðir og þvinganir í trássi við alþjóðalög og samninga,“ segir Sigmundur.

Hann segir ekkert hafa staðist sem stjórnvöld hafi haldið fram um aðildarumsókn Íslands. „Í stað þess að Íslendingar njóti sérstaks skilnings í sjávarútvegsmálum ræðst ESB harkalega gegn rétti okkar til veiða, og það á meðan á aðildarviðræðum stendur. Í stað þess að Ísland hafi haft efnahagslegan ávinning af umsókninni ræðst Evrópusambandið gegn hagsmunum almennings í fjölmiðlum, í þingsölum og nú fyrir dómstólum.“

Heimasíða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert