Enginn hámarksfjöldi barna í bekk

Krakkar á skólabekk.
Krakkar á skólabekk. Eggert Jóhannesson

Mennta- og menningamálaráðuneytið telur ekki rétt að taka afstöðu til fjölda nemenda í bekkjum grunnskóla, en frá árinu 1996 hafa ekki verið í gildi sérstakar reglur um fjölda nemenda í hverjum bekk. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins til umboðsmanns barna.

Umboðsmaður lagði fyrir ráðuneytið tvær spurningar, þ.e. um hámarksfjölda barna í bekk og hádegishlé barna í grunnskólum. Svarið var svo birt á vefsvæði umboðsmanns.

Hvað hámarksfjöldann varðar segir í svarinu, að fyrir flutning grunnskólans til sveitarfélaga hafi ráðuneytið gefið út reglugerðir um fjölda nemenda í bekk. Við flutninginn 1996 hafi slíkar reglur hins vegar ekki verið í gildi. „Við flutninginn var miðað við að sveitarfélög myndu áfram reka grunnskólann með svipuðu sniði og ríkið gerði, en sveitarfélög fengu ákveðið svigrúm til að útfæra grunnskólalög og aðalnámskrá grunnskóla.“

Þá segir að lög um grunnskóla veiti sveitarfélögum og skólum sjálfstæði til að skipuleggja nám í samræmi við þarfir og aðstæður á hverjum stað. Meginstefnan sé að allir nemendur eigi þess kost að stunda nám í heimaskóla sínum án aðgreiningar. „Af þessum sökum telur ráðuneytið ekki rétt að taka afstöðu til fjölda nemenda í bekk, ekki síst þar sem aðstæður og viðfangsefni geta verið með mismunandi hætti.“

Ekki ástæða til að lögbinda tímamörk

Umboðsmaður spurði einnig hvar ráðuneytið telji eðlilegt að sé lágmarkstími fyrir nemendur til að borða hádegismat.

Í svari ráðuneytisins er aftur vísað til svigrúms sveitarfélaga og skólanna sjálfra, s.s. þar sem aðstæður í skólum geta verið afar mismunandi. Því hafi ekki þótt ástæða til að lögbinda tiltekin lágmarks- eða hámarkstíma í þeim efnum.

Þá segir, að ráðuneytið telji ekki rétt að taka afstöðu til þess hvað sé eðlileg lengd á matarhléum í grunnskólum en „[r]áðuneytið telur mikilvægt að nemendur fái að koma á framfæri skoðunum sínum og óskum um skólahald og að taka skuli réttmætt tillit til sjónarmiða þeirra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka