Fundir hjá stjórnarflokkunum

Frá þingflokksfundi Samfylkingar fyrir nokkru.
Frá þingflokksfundi Samfylkingar fyrir nokkru. mbl.is/Árni Sæberg

Þingflokkar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna voru boðaðir til funda eftir hádegið í dag. Þetta fékkst staðfest á skrifstofu Alþingis en ekki næst í formenn þingflokkanna. Fundarefnið hefur ekki fengist staðfest en gera má að því skóna að það tengist málinu sem helst hefur verið í umræðunni; Icesave.

Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum ætlar framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að fá aðild að málarekstri Eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi vegna Icesave málsins. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, greindi frá því í morgunþætti Rásar 2 í morgun að hún hefði frétt af kröfu framkvæmdastjórnar ESB í fréttum í fyrradag.  Eins og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag vissi utanríkismálanefnd Alþingis ekki um kröfuna heldur fyrr en fjallað var um málið í fjölmiðlum í fyrradag 11. apríl en utanríkisráðuneytinu mun hafa verið tilkynnt um kröfu framkvæmdastjórnarinnar með bréfi 27. mars síðastliðinn.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði fyrr í dag að hugsanlega hefði hann átt að ræða málið við utanríkismálanefnd og að hann beri ábyrgð á að segja forsætisráðherra frá gangi mála. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert