Lögregla höfuðborgarsvæðisins er með til rannsóknar nauðgun sem kærð var í síðasta mánuði. Þetta staðfesti Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar. Hann segir rannsóknina langt á veg komna og ætti henni að ljúka í næstu viku.
Í málinu kærði ung kona nauðgun á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur. Fréttavefur DV greindi frá því fyrr í dag að nauðgunin hefði átt sér stað á salerni tiltekins skemmtistaðar. Björgvin vill hins vegar ekki staðfesta það sem fram kemur í frétt DV um nefndan stað, staðsetningu inni á staðnum eða aðrar ítarupplýsingar sem fram koma í fréttinni.
Björgvin segir þó að fólkið, þ.e. gerandi og þolandi, sé um og yfir tvítugt að aldri.