Leggjast ekki gegn meðalgöngu ESB

EFTA-dómstóllinn er staðsettur í Lúxemborg.
EFTA-dómstóllinn er staðsettur í Lúxemborg. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslensk stjórnvöld hafa í dag svarað álitsumleitan forseta EFTA-dómstólsins á beiðni framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um leyfi til meðalgöngu í Icesave-málinu. Var það einróma niðurstaða stjórnvalda hér að það þjónaði best hagsmunum Íslands að leggjast ekki gegn meðalgöngu hennar í málinu.

Svarið er byggt á ráðgjöf aðalmálflytjandans í málinu, Tim Ward, og málflutningsteymisins sem skipað var honum til ráðgjafar, samkvæmt tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

„Frá því EES-samningurinn tók gildi hefur framkvæmdastjórnin alltaf stutt Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í málum sem hún hefur stefnt fyrir EFTA-dómstólinn með því að leggja fram skriflega greinargerð. Á hinn bóginn hefur framkvæmdastjórnin ekki áður nýtt sér heimild til að styðja stofnunina fyrir meðalgöngu.

Meginmunurinn á meðalgöngu og skriflegri greinargerð er sá að stjórnvöld munu eiga þess kost að svara sérstaklega afstöðu sem fram kemur við meðalgöngu en þess er ekki kostur þegar hún kemur eingöngu fram í skriflegri greinargerð. Þegar til þess er litið hversu stór hluti málsmeðferðar fyrir EFTA-dómstólnum er skriflegur er það verulegur ókostur fyrir aðila málsins að geta ekki svarað öllum fram komnum gögnum á sama hátt, en munnlegur málflutningur er yfirleitt tiltölulega stuttur og ræðutími að jafnaði ekki lengri en 30 mínútur.

Aðalmálflytjandinn og málflutningsteymið hafa fjallað ítarlega um málið. Mörg sjónarmið komu þar til skoðunar en þegar til þess var litið að málflutningi framkvæmdastjórnarinnar yrði ekki á annan hátt svarað skriflega var það einróma niðurstaða þeirra að það þjónaði best hagsmunum Íslands að leggjast ekki gegn meðalgöngu hennar í málinu,“ segir í tilkynningu.

Sett í hendur EFTA-dómstólsins

Er í svari stjórnvalda lagt í hendur EFTA-dómstólsins að ákveða hvort meðalganga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins verði leyfð.

„Jafnframt er tækifærið notað til að hvetja réttinn til að endurskoða meðferð skriflegra greinargerða fyrir dómstólnum með það fyrir augum að gera aðilum kleift að svara þeim skriflega, hvort heldur þær stafa frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eða aðildarríkjum þess.

Af hálfu stjórnvalda er að þessu leyti ástæða til að fagna því tækifæri sem annars hefði ekki skapast til að draga athyglina að þessum annmarka á málsmeðferð EFTA-dómstólsins og vonir bundnar við að dómstóllinn taki athugasemdir stjórnvalda í þessa veru til greina.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert