Menntamálaráðuneytið telur að fyrirhuguð sameining unglingadeilda Hamraskóla og Húsaskóla við unglingadeild Foldaskóla í Grafarvogi feli í sér umfangsmiklar breytingar sem kunni að leiða til umróts í skólasamfélaginu. Æskilegt séað innleiða slíkar breytingar í ákveðnum skrefum á lengri tíma.
Í bréfinu er rakið að mikil andstaða sé meðal foreldra við áform um sameiningu. „Það er álit ráðuneytisins að undirbúningi sameiningarinnar sé í ljósi þessa áfátt og að vinna þurfi frekar að sáttum í máli þessu.“
Ráðuneytið bendir á spurningalista Ríkisendurskoðunar frá 19. mars 2010 um eftirlit með sameiningu stofnana. „Helstu kaflar listans varða markmið með sameiningu, fjárhagslegt mat, stjórnun sameiningar og gerð samrunaáætlunar. Ráðuneytið ítrekar mikilvægi þess að höfð sé hliðsjón af gátlista þessum við sameiningu skóla eða deilda á milli skóla. Ráðuneytið mun áfram fylgjast með framkvæmd sameiningarinnar og fjalla um hana á grundvelli yfirstjórnar og eftirlitsheimilda samkvæmt grunnskólalögum,“ segir í bréfinu.
Að áliti foreldra í Hamraskóla er í svarbréfi ráðherra sett alvarlega ofan í framkvæmd Reykjavíkurborgar í sameiningarmálinu. Í svarinu ítrekar ráðherra að samkvæmt grunnskólalögum þá ber að hafa samráð og samvinnu við hagsmunaaðila við allar meiriháttar breytingar á skólastarfi. Foreldrar benda á að slíkt hafi ekki verið gert í þessu tilviki.
Í yfirlýsingu frá foreldrum Húsaskóla er svari menntamálaráðherra fagnað. „Enn er ekki of seint að snúa við þessari ákvörðun borgarinnar, enda gengur hún augljóslega gegn vilja afgerandi meirihluta íbúa hverfanna. Það þarf stundum meiri kjark til að snúa frá rangri ákvörðun heldur en að halda henni til streitu. Við hvetjum borgaryfirvöld til að sýna kjark og fara að vilja íbúanna. Íbúalýðræði má ekki bara vera skrautorð á tyllidögum og í kosningabaráttu.“
Borgarstjóri mun á mánudaginn taka við undirskriftum foreldra í Grafarvogi sem lýsa sig andsnúna sameiningu skólanna.