Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í samtali við Ríkisútvarpið í morgun að Icesave-málið væri stórt mál og því væri ekki óeðlilegt að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vildi koma að því. Hún sagði að krafa framkvæmdastjórnarinnar fæli í sér tækifæri fyrir Íslendinga að koma sjónarmiðum sínum betur á framfæri og að ekki væri rétt að leggjast gegn henni.
Eins og mbl.is hefur greint frá hefur framkvæmdastjórn ESB farið fram á að koma að málsókn Eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum vegna Icesave-málsins en það mun vera í fyrsta sinn sem framkvæmdastjórnin óskar eftir svo formlegri aðkomu að máli fyrir dómstólnum.
Frétti af kröfu ESB í fjölmiðlum
„Ég vissi nú bara um þetta þegar þetta kom í fréttum,“ sagði Jóhanna aðspurð hvenær hún hefði frétt af kröfu framkvæmdastjórnar ESB. Eins og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag vissi utanríkismálanefnd Alþingis ekki um kröfuna heldur fyrr en fjallað var um málið í fjölmiðlum í fyrradag 11. apríl en utanríkisráðuneytinu mun hafa verið tilkynnt um kröfu framkvæmdastjórnarinnar með bréfi 27. mars síðastliðinn.
Jóhanna lagði áherslu á að Icesave-málið og umsókn Íslands um aðild að ESB væru aðskilin mál. Hún sagðist ósammála ummælum Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, í gær þar sem hann tengdi þessi mál meðal annars saman.
Afstaða Sigmundar pólitík
Þá sagði Jóhanna aðspurð um ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, um að gera ætti hlé á viðræðunum við ESB um aðild að það væri aðeins pólitík af hans hálfu. Hann væri að reyna að nota málið til þess að bregða fæti fyrir aðildarferlið.
Jóhanna var ennfremur spurð að því hvernig ríkisstjórnin myndi bregðast við kröfu framkvæmdastjórnar ESB um aðkomu að Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum og sagði hún að stjórnvöld myndu nú fara yfir málið með sínum lögfræðingum.
Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að stjórnvöld hafi frest til dagsins í dag til þess að skila inn athugasemdum við kröfu framkvæmdastjórnarinnar.