Segir skilaboð ESB vera kýrskýr

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég ætla ekki að tjá mig sérstaklega um þennan fund, en ég get sagt almennt um málið að ég dreg engan veginn í efa lagalega heimild ESB til að krefjast meðalgöngu og það er að mínu mati mikilvægt að við aðgreinum hið lagalega og hið pólitíska í þessari aðgerð,“ segir Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG, um fund utanríkismálanefndar sem haldinn var fyrr í kvöld.

Að sögn Guðfríðar Lilju eru pólitísk skilaboð Evrópusambandsins skýr. „Þetta er í fyrsta sinn sem ESB beitir sér með nákvæmlega þessum hætti og í mínum huga eru hin pólitísku skilaboð kýrskýr – það er einfaldlega sparkað í okkur og það á sama tíma og við erum í aðildarferli að þessu sama sambandi,“ segir Guðfríður Lilja en hún segist líta á þetta sem enn eitt tilefnið til þess að endurskoða aðildarferlið.

„Hvorki þing né þjóð geta látið eins og ekkert sé,“ segir Guðfríður Lilja og bætir við: „Það er fullt tilefni til að bæði þingið endurskoði afstöðu sína og að þjóðin fái að skera úr um það hið allra fyrsta hvort henni yfirhöfuð geðjast að því að vera á leið inn í Evrópusambandið á þeim forsendum sem þegar blasa við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert