„Sendum þeim pólitísk skilaboð á móti“

„Hins vegar er þetta mál bullandi pólitískt og þar stendur upp á íslensk stjórnvöld að mótmæla kröftuglega. Mín skoðun er óbreytt - ég tel að aðildarviðræðunum sé sjálfhætt,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag um kröfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að koma að málsókninni gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum vegna Icesave-málsins.

Hún segir að ESB sé með þessu að senda pólitísk skilaboð með því að krefjast aðkomu að málinu og taka þannig afstöðu með gagnaðila Íslands. „[V]ið skulum senda þeim pólitísk skilaboð á móti og segja: Nei takk - við ætlum að einbeita okkur að því að verja íslenska hagsmuni.“

Ragnheiður segir að málið sé þannig tvíþætt. Annars vegar pólitískt og hins vegar „lögfræðilegi málflutningurinn fyrir EFTA dómstólnum þar sem við erum með framúrskarandi lögfræðiteymi sem ég treysti. Það er mjög mikilvægt að við stöndum saman um þeirra störf og berjumst saman í þágu íslenskra hagsmuna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert