„Forsætisráðherra gerði ítrekaðar tilraunir til þess að halda fyrrverandi sjávarútvegsráðherra að verki við að semja nothæft frumvarp að nýjum fiskveiðistjórnunarlögum,“ segir Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á heimasíðu sinni og fer hörðum orðum um aðkomu Jóns Bjarnasonar, fyrrum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að nýjum lögum um stjórn fiskveiða.
Ólína segir að Jóni hafi verið veittur liðstyrkur innan úr ríkisstjórninni og úr hópi stjórnarþingmanna til verksins og allt hafi verið reynt til þess að þoka málinu áfram „þrátt fyrir þvergirðingshátt ráðherrans og augljósan vandræðagang.“ Hún segir ennfremur að af tillitsemi við Jón og „sennilega til þess að niðurlægja hann ekki opinberlega“ hafi hann fengið að halda forræði málsins eins lengi og stætt hafi verið á því.
„Ég kom að þessari vinnu og fylgdist grannt með framgangi málsins. Ég get þess vegna ekki þagað yfir því sem rétt er,“ segir Ólína í tilefni af grein sem Jón skrifaði í Morgunblaðið fyrir nokkru síðan ásamt Atla Gíslasyni, alþingismanni. Hún segir að þeim tveimur hafi verið treyst fyrir úrlausn einhvers mikilvægasta baráttumáls ríkisstjórnarflokkanna á kjörtímabilinu.
Hún segir að landsmenn hafi síðan getað „fylgst með því hversu vel þessir tveir stjórnmálamenn risu undir því trausti sem þeim var sýnt, og hversu vel þeir gangast við ábyrgð sinni á málsmeðferðinni.“ Ábyrgð Jóns vegi þar þyngst.