Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í stjórn Faxaflóahafna lögðu á fundi hennar í dag fram tillögu um að hefja viðræður við Reykjavíkurborg varðandi eignarhald á landi við Mýrargötu og mörk hafnar og borgar á svæðinu.
Sjálfstæðismenn vilja fela Hafnarstjóra að tilkynna Reykjavíkurborg um áhuga stjórnar Faxaflóahafna, að hefja viðræður, og að í þeim verði skoðuð mörk borgar og hafnar almennt við Gömlu höfnina og þau endurmetin. „Sérstaklega á það við um reiti sem samkvæmt tillögu að rammaskipulagi (Graeme Massey) munu breytast í blönduð hverfi íbúða og skrifstofa.“
Innan skamms munu Faxaflóahafnir kynna nýtt skipulag við Gömlu höfnina sem byggir á mikilli aukningu íbúða á svæðinu einkum þar sem báta og skipaviðgerðir voru áður. Júlíus Vífill Ingvarsson, annar fulltrúa Sjálfstæðisflokks í stjórn Faxaflóahafna, segir að uppbygging og rekstur íbúðarbyggðar sé áhættustarfsemi sem teljist ekki til kjarnastarfsemi Faxaflóahafna og því sé næsta skref að endurskilgreina og skýra stefnu félagsins. „Slíkur rekstur er á færi á Reykjavíkurborgar og því eðlilegt að hún taki yfir þessi svæði og klári uppbyggingu þeirra.“