„Við vorum mjög á einu máli um að þetta væri fáheyrð ósvífni,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra um þingflokksfund VG í gær en báðir stjórnarflokkarnir boðuðu til skyndifunda þar sem m.a. var rætt bréf framkvæmdastjórnar ESB um aðkomu þess að Icesave-deilu fyrir EFTA-dómstólnum.
„Mér finnst full ástæða til þess að setjast yfir endurskoðun á þessu viðræðuferli öllu,“ segir Ögmundur. Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, segir bréf ESB óhjákvæmilega hafa áhrif á andrúmsloft samskipta við Evrópusambandið.
„Mér finnst auðvitað að ríkisstjórnin öll eigi að segja af sér, en klúður í þessu sambandi er í mínum huga enn eitt kornið í þann mæli,“ segir Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, aðspurður hvort utanríkisráðherra beri að segja af sér embætti í ljósi þess að honum láðist að hafa samráð við Alþingi um Icesavemálið, en eins og kom fram í fréttum í gær þá hafði ráðherrann fengið að vita um áætlanir ESB í þeim efnum með bréfi dagsettu hinn 27. mars sl. Birgir telur að ljóst sé að endurskoða þurfi aðildarviðræðurnar.