Flugfélagið Ernir mun í sumar vera með beint flug til Húsavíkur fjóra daga vikunnar. Áætlanaflug hefst á morgun, síðast var flogið beint til Húsavíkur árið 2000. Mýflug hætti flugi til Húsavíkur árið 2000 eftir að hafa haldið uppi ferðum í tvö ár.
Þrettán ár eru síðan Flugfélag Íslands hætti að fljúga til Húsavíkur. Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri segir þessa ákvörðun skipta Norðurþing miklu máli og íbúa fagna fréttunum.
„Annarsvegar einfaldar þetta aðgengi ferðamanna að svæðinu og hinsvegar heimamanna að höfuðborgarsvæðinu. Þetta styttir ferðina til Reykjavíkur um tæpar þrjár klukkustundir.“ Bergur sér mikil sóknarfæri með þessum tíðindum, „Hingað kemur mikill fjöldi ferðamanna, innlendir sem og erlendir, og ferðaþjónustuaðilar bíða spenntir.“ Flogið verður sjö sinnum í viku, tvisvar á þriðjudögum, fimmtudögum og föstudögum en einu sinni á sunnudögum.