Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem þeir gagnrýna harðlega meirihluta borgarstjórnar fyrir að ætla að undirrita samkomulag við ríkisvaldið sem felur í sér frestun mikilvægra vegaframkvæmda í Reykjavík.
Þannig munu framkvæmdir vegna Sundabrautar frestast ásamt lausnum við mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut og framkvæmd jarðgangna undir Öskjuhlíð svo dæmi séu tekin. Samkvæmt því samkomulagi sem nú liggur fyrir verða framkvæmdum frestað í minnst 10 ár.
Óásættanleg ákvörðun
Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, gagnrýnir meirihlutann fyrir að hafa ekki staðið vörð um hagsmuni Reykjavíkur og borgarbúa í þessum ákvörðunum og að hafa greitt alltof hátt verð fyrir samkomulag um eflingu almenningssamgangna.
„Á fundi borgarstjórnar næsta þriðjudag verður lagt fram til afgreiðslu samkomulag við ríkisvaldið um það sem kallað hefur verið „samkomulag um eflingu almenningssamganga,“ þar sem auknu fjármagni ríkisvaldsins til þess málaflokks er ráðstafað,“ segir Hanna Birna og bætir við: „Minna hefur hins vegar verið gert úr þeim mikla kostnaði sem Reykjavík ber af þessu samkomulagi, þar sem í fylgiskjali með samkomulaginu er ákveðið að fresta mörgum lykilframkvæmdum í samgöngumálum borgarbúa. Það er óásættanlegt og í engu samræmi við þá forgangsröðun framkvæmda í samgöngumálum sem borgin hefur lagt áherslu á.“
Þá segir Hanna Birna að enn einu sinni virðist meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar ganga til samninga við ríkisvaldið án þess að skýr markmið um hagsmuni borgarbúa liggi fyrir.
„Því er niðurstaðan sú að fallist er á langtíma frestun stærstu og mikilvægustu samgöngubóta í borginni og það án þess að þær ákvarðanir fái ítarlega eða lýðræðislega umfjöllun á vettvangi borgarstjórnar. Hugsanlega hefði verið hægt að rökstyðja frestun framkvæmda sem fela í sér svipaðan kostnað fyrir ríkisvaldið á samningstímanum og fyrirliggjandi samkomulag um almenningssamgöngur gerir, en að fresta framkvæmdum sem eru margfaldur sá kostnaður er óásættanlegt gagnvart Reykjavík og íbúum,“ segir Hanna Birna.
Ekki í þágu borgarbúa
Þá benda borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins einnig á að alltof lítill tími hafi gefist til að fara yfir samninginn og þau gögn sem honum fylgja. Vegna þess sé óljóst hver áhrif þessa verða nákvæmlega fyrir borgina og hver fjárhagslegur kostnaður borgarinnar verði miðað við hugsanlegan fjárhagslegan ávinning af aðkomu ríkisins að almenningssamgöngum.
Segir einnig í tilkynningu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að ljóst sé að sá samningur sem nú liggur fyrir er ekki nógu góður fyrir Reykjavík og alltof dýru verði keyptur ef miðað er við þær fjölmörgu, umfangsmiklu og mikilvægu framkvæmdir sem nú frestast í höfuðborginni vegna samningsins.