Makríldeilan og inngrip framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Icesave-deiluna hafa aukið á titringinn á meðal óbreyttra flokksmanna VG á landsbyggðinni sem óttast áhrif aðildarviðræðna við ESB á útkomuna í næstu kosningum.
VG fékk 14 þingsæti eftir kosningarnar í apríl 2009 og komu þar af níu frá kjördæmunum fjórum utan höfuðborgarsvæðisins. Ölver Guðnason, meðstjórnandi VG á Austurlandi, segir tvö þingsæti þar í hættu. „Við fengum þrjá þingmenn. Við fáum kannski einn í næstu kosningum. Þessi flokkur er alveg búinn hérna,“ segir Ölver.
Í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir Sigurbergur Árnason, formaður VG í Hafnarfirði, aðkomu framkvæmdastjórnar ESB að Icesave-deilunni valda straumhvörfum í baráttunni gegn aðild. „Ég hef enga trú á að Evrópumálin verði til trafala. Það er annar aðili sem mun taka þann glæp af öllum. Ég hef trú á því að ESB sé sjálft að klúðra því ferli með aðkomu sinni að Icesave-málinu núna. Ég held að þetta verði eins og þorskastríðin, að allir Íslendingar muni sameinast.“