Aukinn áhugi er hjá íslenskum útgerðarmönnum á að veiða rækju á Svalbarðasvæðinu, en Norðmenn hafa einungis úthlutað Íslendingum veiðum þar í 70 daga. Jón Guðbjartsson, útgerðarmaður á Ísafirði, segir að áform hans um að senda skip á svæðið séu í uppnámi vegna þess að togarinn Brimnes hafi verið þar að veiðum og því ekki pláss fyrir sitt skip.
Enginn samningur er milli Íslendinga og Norðmanna um veiðar á rækju við Svalbarða. Við erum hins vegar með samning við þá um síldveiðar. Færeyingar hafa aftu á móti gert samning við Norðmenn um rækjuveiðar við Svalbarða og samkvæmt honum mega þeir veiða þar um 600 daga.
Norðmenn hafa hins vegar úthlutað Íslendingum einhliða 70 dögum til rækjuveiða. Íslensk stjórnvöld hafa mótmælt þessari úthlutun enda viðurkenna þau ekki rétt Norðmanna til einhliða ákvörðunar um veiðar á svæðinu. Ísland er ásamt 48 öðrum þjóðum aðili að Svalbarðasamningnum. Stjórnvöld segja að fullveldisréttindi Noregs á Svalbarðasvæðinu séu háð mikilvægum takmörkunum sem kveðið er á um í Svalbarðasamningnum og skipti þar mestu máli jafnræðisregla hans. Takmarkanir þessar gildi jafnt á Svalbarða sjálfum, innan 12 mílna landhelginnar, innan 200 mílna lögsögunnar og á landgrunni Svalbarða.
Á síðasta vetri fór Brimnes, sem útgerðarfélagið Brim gerir út, til rækjuveiða á Svalbarðasvæðinu. Guðmundur Kristjánsson útgerðarmaður segir að Brimnes sé með íslenskt veiðileyfi og fari til veiða á grundvelli þess. Aðspurður hafnaði hann því að Brim hafi sótt um leyfi til veiða hjá Norðmönnum. Hann segir að veiðarnar hafi ekki gengið vel og á síður von á að senda skipið aftur til veiða við Svalbarða.
Útgerðarfélagið Birnir keypti í vetur rækjutogarann Ísbjörn. Jón Guðbjartsson, eigandi Birnis, segir að skipið hafi farið einn veiðitúr við Ísland til prufu og síðan hafi skipið verið sent til rækjuveiða í Smugunni. Hann hefur hins vegar líka áhuga á að komast til veiða við Svalbarða. Hann hafi hins vegar komist að því í vetur að Brimnes væri búinn að vera þar við veiðar og búinn að taka þann veiðirétt sem Íslendingar höfðu þar.
Jón hefur snúið sér til sjávarútvegsráðuneytisins til að reyna að fá svör um það hvort hann geti veitt við Svalbarða. Íslensk stjórnvöld eru hins vegar í erfiðri stöðu til að fara að úthluta veiðileyfum við Svalbarða því ef þau gerðu það væru þau um leið að viðurkenna að Norðmenn hafi haft heimild til að skammta Íslendingum 70 daga til veiða við Svalbarða.
Talið er víst að Norðmenn myndu hafa afskipti af íslenskum rækjuskipum ef tvö eða fleiri skip færu þangað til veiða. Skipin gætu því lent í sektum og kostnaði við að stunda veiðar á þessu hafsvæði, en þessar veiðar eru áhættusamar og ekki víst að sá kostnaður sem útgerðirnar leggi í skili sér.
Jón vonast eftir að næg verkefni verði fyrir togarann Ísbjörn á næstunni. Skipið muni næstu vikurnar reyna fyrir sér í Smugunni og hugsanlega á Flæmska hattinum. Eins hefur hann ekki gefið upp alla von um að komast á Svalbarðasvæðið. Það sé hins vegar erfitt að berjast við kerfið í þessu máli því íslensk stjórnvöld vilji ekki taka ákvarðanir á grundvelli einhliða úthlutunar Norðmanna og Norðmenn hafi engan áhuga á að fjölga íslenskum skipum á svæðinu.