Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra segir að hin svokölluðu Brussel-viðmið séu óskamál Samfylkingarinnar. Hann vísar á bug kenningum Björns Vals Gíslasonar, þingflokksformanns VG, sem sagði í pistli í morgun að viðbrögð sumra stjórnmálamanna við kröfu framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins um aðkomu að dómsmáli vegna Icesave vera furðuleg.
Björn Bjarnason rifjar upp aðdraganda Icesave-málsins og minnir á að það hafi verið mat Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur haustið 2008 að hún hafi talið dómstólaleiðina ófæra til að til að taka af skarið um skyldur Íslendinga samkvæmt EES-samningnum. Þetta hafi verið áður en Brussel-viðmiðin komu til sögunnar. „ Þessi skoðun reyndist einfaldlega röng eins og nú hefur sannast eftir að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur í samráði við framkvæmdastjórn ESB og síðan með meðalgöngu hennar ákveðið að leggja málið fyrir EFTA-dómstólinn. Það þurfti þrjá misheppnaða samninga Steingríms J. til að málið lenti í höndum dómara.“
„Engir hafa verið eins einarðir talsmenn Brussel-viðmiðina og málsvarar Samfylkingarinnar sem setja þau í samhengi við ESB-aðildarviðræðurnar. Þeir litu á þau sem leið til að tengja lausn Icesave-málsins aðild að ESB eins og þeir líta á öll mál, nú segja þeir að gjaldeyrishöftin verði ekki afnumin nema með aðild að ESB,“ segir Björn.