Hættir vegna niðurskurðar

Geir Jón Þórisson
Geir Jón Þórisson mbl.is/Friðrik Tryggvason

Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir að ein ástæða þess að hann hafi ákveðið að hætta í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sé sú mikla fækkun sem hafi orðið í lögregluliðinu á síðustu árum.

Geir Jón sagði þetta í samtali við vikublaðið Reykjavík. Geir Jón varð nýlega sextugur og þar sem hann hóf snemma á ævinni störf hjá ríkinu er hann kominn á svokallaða 95 ára aldur og á rétt á að fara á eftirlaun. Geir Jón segir í samtali við blaðið að þetta sé ekki eina ástæðan fyrir því að hann sé að hætta.

„En það sem gerði útslagið er að mér líkar illa þessi mikli niðurskurður hjá lögreglunni og ég bara get ekki tekið þátt í honum lengur. Þeir geta þá sparað eina stöðu á toppnum og ráðið frekar á götuna. Það er illa komið í dag og ég get eiginlega ekki tekið þátt í þessu lengur. Ég treysti mér ekki til að stjórna og stýra mannskap þar sem þarf að fækka sífellt í liðinu sem vinnur þessi erfiðu störf. Ég þekki þetta mjög vel og veit hvað þarf til að við getum unnið þetta sómasamlega. Og það er bara ekki þannig í dag, liðið er alltof fáliðað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert