Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að ganga að kauptilboði í Kaupfélagshúsið svokallaða á Ísafirði upp á 35 milljónir króna. Tilboðið barst frá frá Flosa Kristjánssyni, Gísla Má Ágústssyni, Alfreð Erlingssyni og Ágústi Gíslasyni.
Þeir buðu í síðasta mánuði 30 milljónir í fasteignina en bæjarráð hafnaði því. Var þó samþykkt að hefja viðræður til tilboðsgjafa og í kjölfarið voru boðnar 35 milljónir í húsnæðið en í kauptilboðinu er gert ráð fyrir að eignarhlutanum fylgi 14 bílastæði á planinu norðan við fasteignina sem er að Austurveg 2, samkvæmt frétt á vef Bæjarins besta.
Arna Lára Jónsdóttir bæjarfulltrúi minnihlutans lagði til að tillögu um sölu fasteignarinnar yrði vísað til bæjarráðs til frekari umfjöllunar en tillaga hennar var felld með fimm atkvæðum gegn fjórum. Var í staðinn samþykkt að Eiríkur Finnur Greipsson, oddvita Sjálfstæðisflokksins yrði heimilað ásamt bæjarritara að ganga til samninga við tilboðsgjafa á grundvelli tilboðs þeirra. Þess má geta að í síðasta mánuði hafnaði bærinn 25 milljóna kr. tilboði frá Vestfirskum verktökum ehf. í 2. hússins. Síðastliðið haust barst tilboð upp á 40 milljónir kr. í eignina frá sömu aðilum og buðu 35 milljónir nú en það tilboð rann út.