Betra að hætta alveg en setja málið á ís

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég tek að það skipti mestu máli að við höfum þó það út úr þessum leiðangri [...] að við verðum þá einhverju nær, við Íslendingar,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á Alþingi í dag í umræðum um umsóknina um aðild að Evrópusambandinu. Sagði hann nauðsynlegt að fá einhvern botn í það með hvaða hætti framtíðartengsl Íslands og ESB yrðu.

Steingrímur var að bregðast við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, sem spurði ráðherrann hvað þyrfti að gerast í samskiptum Íslands og ESB til þess að hann teldi komið nóg og rétt væri að hætta viðræðum um inngöngu í sambandið. Nefndi hann makríldeiluna í því sambandi, Icesave-málið og efnahagskrísuna innan ESB.

Sagðist Steingrímur að frekar ætti að ræða það hvort halda ætti áfram viðræðunum eða ekki frekar en að tala um það hvort setja ætti umsóknina á ís eins og sumir hefðu talað um. Spurði hann hvort menn teldu að ESB yrði eitthvað betra eftir einhvern tíma ef málið yrði sett á ís. Þá sagði Steingrímur að ekki væri rétt að taka neinar skyndiákvarðanir í þessum efnum og ekki gera neitt sem gæti veikt stöðu Íslands.

Sigmundur rifjaði upp að Steingrímur hefði sagt þegar sótt var um aðild að ESB að Vinstrihreyfingin - grænt framboð áskildi sér rétt til þess að hætta stuðningi við umsóknina ef ljóst væri að mál væru ekki að þróast í ásættanlegar áttir. Ráðherrann hefði þá sagt að ef til þess kæmi færi væntanlega umræða fram um málið á Alþingi. Spurði Sigmundur hvort Steingrímur væri andvígur því að slík umræða færi fram?

Steingrímur sagði að þar hefði verið átt við það ef upp kæmu aðstæður þar sem þeim grundvallarhagsmunum Íslands, sem skilgreindir væru í áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis sem fylgdi þingsályktuninni um að sótt yrði um aðild að ESB á sínum tíma, væri stefnt í tvísýnu. Hann sagði hins vegar engan hafa fært sönnur á að hvikað hafi verið frá því að standa vörð um þá grundvallarhagsmuni.

Þá sagðist ráðherrann ekkert hafa á móti því að ræða um stöðu umsóknarinnar. Það væri sjálfsagt mál að slík umræða færi fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka