Greiða 75 þúsund fyrir námskeiðið

Óvissa ríkir um ættleiðingar á Íslandi.
Óvissa ríkir um ættleiðingar á Íslandi. Reuters

Foreldrar sem sótt hafa námskeið Íslenskrar ættleiðingar hafa greitt 75 þúsund krónur í námskeiðsgjöld. Þrátt fyrir það hefur verið tap á flestum námskeiðum. Félagið frestaði í vor aðalfundi vegna þess að enginn vill sitja í stjórn vegna óvissu um stöðu og framtíð félagsins.

Íslensk ættleiðing hefur tilkynnt innanríkisráðuneytinu að við ríkjandi aðstæður getur Íslensk ættleiðing ekki haldið námskeið fyrir verðandi kjörforeldra með sama hætti og áður. Námskeiðin eru forsenda þess að foreldrar megi taka barn til ættleiðingar.

Hörður Svavarsson, formaður Íslenskrar ættleiðingar, var spurður hvers vegna foreldrar greiddu ekki alfarið kostnað við námskeiðin. Hörður sagði að foreldrar greiddu 75 þúsund krónur fyrir námskeiðið og sumum finnist nóg um þann kostnað.

Hörður sagði að gjaldskráin væri háð eftirliti innanríkisráðuneytisins og að það væri í sjálfu sér hægt að fara fram á við ráðuneytið að hækka gjaldið. Hann sagði að vandamálið væri að stundum yrðu afföll þrátt fyrir að búið væri að fullbóka á námskeið og þrátt fyrir að fólk væri búið að borga staðfestingargjald.

„Almennt hefur verið tap á þessum námskeiðum. Við höfum aldrei fengið greitt fyrir stofnkostnað sem lagt var í og nú þarf enn á ný að þjálfa nýja leiðbeinendur.

Ríkisvaldið hefur tekið á sig ýmsar skuldbindingar samkvæmt Haag-samningnum varðandi ættleiðingar. Stjórnvöld hafa falið Ættleiðingafélaginu að leysa ýmis verkefni sem tengjast þessum samningi. Það liggja fyrir drög að þjónustusamningi milli félagsins og ráðuneytisins. Það eru allir sammála um að þeim verkefnum sem Ættleiðingafélaginu er ætlað að sinna kosta 63 milljónir og við fáum 9,2 milljónir af fjárlögum,“ sagði Hörður.

Hörður sagði að innanríkisráðherra hefði lagt fram minnisblað um þetta mál fyrir ríkisstjórnina, en þá var til umræðu fjáraukalög þessa árs. Hann sagðist ekki hafa heyrt neitt um málið síðan, en hann sagðist túlka það svo „að ekki væri pólitískur vilji í ríkisstjórn til að standa betur að verki í þessum málaflokki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert