„Um hvað snúast stjórnmál dagsins? Eru markmið ríkisstjórnarinnar skýr? Er ríkisstjórnin með einhver stórhuga áform um atvinnusköpun? Stendur stjórnarandstaðan sig og mælir fyrir tillögum sem skapa sókn í atvinnulífinu? Við horfum á eftir ungu og öflugu fólki leysa sín framtíðaráform með því að flytja úr landi annaðhvort tímabundið eða til langframa", segir Guðni Ágústsson, fv. alþm. og ráðherra í Morgunblaðinu í dag.
Guðni segist finna dauninn af rotnandi hugsun og uppgjöf. Peningarnir séu lokaðir inni í bönkunum. Skuldir heimila og verðtrygging eru á frosti af því að verkalýðshreyfingin vill græða á kvöldin í lífeyrissjóðunum. Atvinnuleysið vex og ungt fólk, hér eins og í ríkjum ESB, verður atvinnuleysingjar á bótum, viljinn deyr og sjálfsbjargarviðleitnin hverfur.
Í niðurlagi greinar sinnar segir Guðni: „Nú þurfum við Íslendingar að taka okkur á og snúa þessum hlutum við. Hætta ber svo öllum blekkingum um ESB og vísa ber áróðurssendiherra þeirra og Evrópustofunni tafarlaust úr landi, þar sem málið flokkast undir afskipti af íslenskum innanríkismálum".