Hvað sagði Steingrímur?

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon Eggert Jóhannesson

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, var spurður út í stöðu aðildarviðræðnanna við ESB á Alþingi í dag. Fyrirspyrjendur voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður framsóknar, og Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Ólöf Nordal rifjaði upp að Steingrímur hefði lýst aðkomu ESB að Icesave-deilunni sem „fruntulegri“. Spurði hún því hvort hann hygðist koma á framfæri mótmælum við framkvæmdastjórn ESB, sem verður með meðalgöngu í deilunni, hvort ekki væri einsýnt að gera þyrfti hlé á viðræðunum eftir að ESB blandaði sér í tvíhliða deilu og hvort ekki þyrfti að efna tafarlaust til viðræðna um þessi mál á þingi.

Sammála svarinu til dómsforsetans

„Í fyrsta lagi vil ég láta það koma skýrt fram að ég er sammála því svari sem að var sent til dómsforsetans enda varð það undirbyggt með samráði við okkar málsvarnarteymi og vel að því staðið. Þar var samstaða um að ekki væri skynsamlegt af Íslands hálfu að leggjast gegn þessari meðalgöngu Evrópusambandsins úr því að Evrópusambandið hafði á annað borð farið fram á það. Og ég tel mikilvægt að varðveita samstöðuna á bak við það hvernig við stöndum að málum af okkar hálfu í þessum afdrifaríku málaferlum sem þar eru í vændum. Þannig að ég mæli nú frekar með því að háttvirtir þingmenn hafi í huga að þetta tengist afar stóru, erfiðu og afdrifaríku máli fyrir Ísland. Þannig að kannski er nú æskilegt að menn reyni að halda aftur af sér í löngun sinni til þess að gera út á þetta sérstaklega pólitískt.

Ég stend við það hins vegar sem ég hef sagt að þetta var ekki jákvætt innlegg í andrúmsloftið í samskiptum okkar við Evrópusambandið og það er hin pólitíska hlið á þessu máli. Ég er hins vegar ekki talsmaður þess að menn rjúki upp til handa og fóta út af þessu einstaka máli. Ég bendi á að við Íslendingar höfum sjálfir krafist þess að málum af þessu tagi væri haldið aðgreindum. Við höfum oft áður á undanförnum misserum lent í því að deilumál okkar út af einstökum hlutum - að það hefur gætt tilhneigingar til þess að draga þau inn á óskyldan vettvang og nægir þar að minna á Icesave-deiluna og samstarf okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, eða Icesave-deiluna og aðildarviðræður við Evrópusambandið, makríl-deilu og aðildarviðræður við Evrópusambandið og nú þetta. Þannig að hið sama gildir hér að mínu mati: Við eigum að vera sjálfum okkur samkvæm og við eigum ekki að blanda óskyldum hlutum saman í þessum efnum.

Við værum afar litlu nær ef við rykjum núna upp og frestuðum þessum viðræðum og settum þær á ís áður en að farið væri að reyna á grundvallarhagsmuni okkar í þeim köflum viðræðnanna sem mestu máli skipta. Þannig að ég hef ekki skipt um skoðun í þeim efnum, að það sem við eigum að leggja höfuðáherslu á núna og á næstunni, það er að krefjast þess að viðræðum um sjávarútveg og landbúnað og aðra slíka grundvallarkafla í viðræðunum að þeir opnist þannig að við verðum þá einhverju nær eftir að búið er að gera það og farið er að reyna á okkar eiginlegu grundvallarhagsmuni í viðræðunum.“

Pólitísk hlið á málinu

Steingrímur svaraði síðan öðru sinni.

„Það er pólitísk hlið á þessu máli og ég hef tjáð mig um hana og hef engu við það að bæta. Ég hef tjáð mig alveg sæmilega skýrt á íslensku um hana. Ég tel að þetta sé ekki gott upp á andrúmsloftið í samskiptum okkar við Evrópusambandið en það snýr auðvitað almennt að þeim samskiptum og heimurinn heldur nú áfram þrátt fyrir æsinginn hér á þingi og ef háttvirtur þingmaður hefur bundið vonir við að hún togaði hér út úr mér svör um það að það ætti að slíta viðræðunum í hvelli, slíta ríkisstjórnarsamstarfinu og boða til kosninga á morgun að þá verð ég að hryggja háttvirtan þingmann.

Hún fær engin slík svör. Ég tel að þetta sé ekki mál af því tagi að það gefi tilefni til slíkra upphlaupa eða slíks æsings. Málið hefur verið rætt í ríkisstjórn - að sjálfsögðu - og í ríkisstjórn voru menn sammála um greininguna á þessu, að það bæri að hlíta ráðleggingum málsvarnarteymisins og svara í samræmi við það. Það er það sem ég tel að við eigum að hafa hér í öndvegi, það er að vanda okkur við okkar framgöngu í þessum mikilsverðu málum sem eru núna að sigla til dóms og getur varðað Ísland miklu hvernig tekst að halda á. Ég tel að það hafi verið undirbúið af kostgæfni og utanríkisráðherra hefur lagt sig fram um það að hafa breiða samstöðu á bak við málsvarnarhópinn og skipa hann þannig. Ég tel að við eigum að standa saman um þá samstöðu og það gildir líka um stjórnarandstöðuna.“

Reyndi að lesa hug Ólafar Nordal

Sigmundur Davíð sagði það hafa komið fram í máli Steingríms í fyrsta skipti, að það væri beint samasemmerki að slíta viðræðum við ESB og slíta stjórnarsamstarfinu.

Steingrímur vísaði þessu á bug.

„Háttvirtur þingmaður snýr út úr mínum orðum. Ég dró ekkert samasemmerki á milli stjórnarsamstarfsins og þessara hluta að öðru leyti. Ég lét það eftir mér að vísu að geta mér í hug háttvirts þingmanns, Ólafar Nordal, hvaða svör hún hefði helst viljað fá frá mér um stórtíðindi dagsins og það á ekki að lesa neitt annað út úr því. Þannig að ég bið háttvirtan þingmann að taka þetta bara heim með sér og endurskoða það. Ég tel að það skipti mestu máli að við höfum þá það út úr þessum leiðangri - því svo sem nóg er hann búinn að kosta og næga orku er hann búinn að taka og hefur ekkert verið endilega auðveldur öllum - að við verðum þá einhverju nær Íslendingar. Því þetta eru grundvallarspurningar sem þrátt fyrir allt þarf að svara að lokum.

Hvernig verður framtíðartengslum okkar við Evrópusambandið háttað? Sú spurning yfirgefur okkur ekki ef við fáum ekki einhvern botn í þetta mál. Mér finnst það satt best að segja dálítið merkileg hugmynd að þetta leysist allt saman með því að setja málið á ís í nokkra mánuði. Verður þá Evrópusambandið aftur orðið gott bara eftir nokkra mánuði, ef það er sett á ís í nokkrar vikur, eða nokkra mánuði? Það er ekki mikil lausn. Mér finnst þá heiðarlegra að menn segi bara af eða á. Annað hvort á bara að hætta þessu og þetta er búið og það á þá aldrei að tala um þetta meir, eða að menn vilji halda áfram. Ég tel að mestu máli skipti að fara ekki út af sporinu og muna hvað þetta snýst um: Það er að láta þá reyna á grundvallarhagsmuni Íslands þannig að við fáum botn í það og þurfum ekki að þvarga um það meir hvað vær[i] í boði í samningum um einhverjar þær sérlausnir og einhverjar þær útfærslur varðandi grundvallarhagsmuni Íslands, að það teldist ásættanlegt eða ekki. Þegar búið er að reyna á það að þá þurfum við ekki að gera það oftar. Þá gætum við sett þetta mál niður til langrar framtíðar og það væri að sjálfsögðu betri útkoma heldur en að setja þetta á ís í einhvern óráðinn tíma og vera engu nær. Þá fyrst væri þessi leiðangur nú orðinn til lítils að mínu mati. Þannig að ég tel að við eigum ekki að taka neinar skyndiákvarðanir. Við eigum sem sagt ekki að fara á taugum og við eigum bara að halda höfðinu köldu og hugsa um það hvað varðar Ísland í þessum málum. Það eru annars vegar málaferlin og gera ekki það sem gæti veikt okkar stöðu í þeim og ræða hitt svo bara yfirvegað.

Gerðu sjálfsagða fyrirvara

Steingrímur svaraði Sigmundi Davíð öðru sinni.

„Á vordögum 2009 að þá áskyldi ég fyrir hönd okkar þingmanna Vinstri grænna okkur að sjálfsögðu fyrirvara um það að endurmeta stöðu þessa máls ef nýjar og breyttar forsendur kæmu upp. Við erum í þessum viðræðum á grundvelli leiðsagnar sem að fyrst og fremst er fólgin í nefndaráliti meirihluta utanríkismálanefndar þar sem að grundvallarhagsmunir Íslands eru skilgreindir. Það er í mínum huga alveg ljóst að ef upp eru komnar aðstæður þar sem að þeim grundvallarhagsmunum er af einhverjum ástæðum stefnt í tvísýnu að þá eru komnar upp slíkar aðstæður.

Ég er að sjálfsögðu ekki á móti því að Alþingi ræði þetta og við erum nú reyndar að því - og kannski fæ ég þriðju fyrirspurnina um sama efni hérna á eftir? - að sjálfsögðu gerum við það í viðkomandi þingnefnd og svo framvegis. Það er eðlilegt að leggja mat á stöðuna. Ég geri engar athugasemdir við það. Bæði þá samningaviðræðurnar sjálfar og hvernig þær standa - og þar snúa áhyggjur okkar fyrst og fremst að því að það hefur dregist um of að mikilvægir kaflar opnuðust upp. Við leggjum á það ríka áherslu að það gerist og svo þá kannski að velta fyrir sér pólitískum hliðum málsins. Ég sé ekki að í neinu tilviki hafi nokkrum tekist að færa fram sönnur um að í einu eða neinu hafi verið hvikað frá því að standa vörð um þá grundvallarhagsmuni sem skilgreindir voru hér vorið 2009. Og á meðan svo er ekki að þá hafa menn lítið efni í sín upphlaup hér um þessi mál,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon.

Upptökur af hinum óundirbúna fyrirspurnartíma má nálgast hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert