Klækjapólitík hamlar uppbyggingu

Atkvæðagreiðsla á Alþingi
Atkvæðagreiðsla á Alþingi mbl.is/Árni Sæberg

Félagsmenn í Félagi íslenskra rafvirkja harma hvernig íslenskir stjórnmálamenn hafa endurtekið látið átaka- og klækjapólitík standa í vegi fyrir nauðsynlegri ákvarðanatöku um uppbyggingu atvinnulífs hér á landi. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundi félagsins í dag.

„Frá árinu 2008 hefur landsframleiðsla á mann á hinum Norðurlöndunum aukist að meðaltali um 55% á meðan hún minnkaði um 4% á Íslandi. Aðalfundur FÍR spyr hvernig stjórnvöld ætli að ná sambærilegri stöðu og hin Norðurlöndin hafa og hversu langan tíma ætla menn að taka sér til þess?

Sú efnahagsstjórn sem íslensk stjórnvöld hafa ástundað frá lýðveldisstofnun í skjóli örgjaldmiðils og reglulegra gengisfellinga hefur birst landsmönnum í 25% meðaltalsverðbólgu á ári, sem veldur því að fjórðungur launatekna rennur milliliðalaust í vasa atvinnurekenda í útflutningsgreinum.

Íslenskir launamenn hafa þannig undanfarin 60 ár varið fjórðung starfsævi sinnar í að greiða herkostnað stjórnmálamanna, sem hafa komið Íslandi í þá stöðu að vera með ónothæfan gjaldmiðill  varinn með gjaldeyrishöftum.

Ísland fjarlægist þannig möguleika til þess að byggt verði upp samfélag sem börnin okkar vilji búa í. Á þessum mikla vanda verður að taka til framtíðar.

Sú atvinnugrein sem varð harðast úti í kjölfar hrunsins haustið 2008 er byggingariðnaður og mannvirkjagerð. Atvinnuleysi í þessum greinum hefur verið um 25%, allar úrbætur hafa tafist í ati stjórnmálamanna. Efling byggingariðnaðar og mannvirkjagerðar hleypir lífi í aðrar greinar atvinnulífsins með beinum og óbeinum hætti.

Fyrir 12 árum varð samkomulag um að vinna að Rammaáætlun, þar náðist sátt um hvernig skapa mætti skilyrði til þess að íslenskt samfélag verði á næstu áratugum að mestu sjálfbært á sviði orkunýtingar. Aðalfundur FÍR telur algjörlega óásættanlegt að loks eftir víðtæka og vandaða rannsóknarvinnu ætli stjórnmálamenn enn einu sinni að gleyma sér í klækjapólitíkinni með því að fara að véla með niðurstöðurnar og tefja þar nauðsynlega uppbyggingu atvinnulífsins.

Tækifærin til uppbyggingar hér á landi eru nánast óþrjótandi s.s. í orkuiðnaði, efna- og lífefnaiðnaði og endurvinnslu. Miklir möguleikar í hefðbundnum greinum íslensks atvinnulífs, sjávarútvegs og landbúnaðar þ.m.t. garðyrkja og fullvinnslu afurða. Aðalfundur Félags íslenskra rafvirkja krefst þess að stjórnmálamenn láta af átakastjórnmálum og taki höndum saman við launamenn um að tryggja traust og gott samfélag á grunni grænna gilda sem eftirsóknarvert er að búa í,“ segir í ályktun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert