Læknar leita til Hjálparstarfsins

Margt fátækt fólk á í erfiðleikum með að mæta óvæntum …
Margt fátækt fólk á í erfiðleikum með að mæta óvæntum lyfjaútgjöldum. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Mörg dæmi eru um að læknar og félagsráðgjafar á sjúkrahúsum hafi samband við Hjálparstofnunar kirkjunnar með beiðni um að stofnunin aðstoði sjúklinga sem ekki geta greitt fyrir lyfin sín. Þetta eru sjúklingar sem eru að útskrifast af sjúkrahúsum og eiga að taka lyf en eiga ekki peninga til að greiða fyrir þau.

Þetta segir Vilborg Oddsdóttir hjá Hjálparstarfi kirkjunnar. Hún segir að lyfjakostnaður sé útgjaldaliður sem sé mörgum fátækum fjölskyldum erfiður. „Það hefur orðið mikil aukning í umsóknum frá fólki sem á í erfiðleikum með að leysa út lyf. Þetta tengist m.a. flensufaraldri. Fólk á erfitt með að greiða fyrir sýklalyf þar sem sjúklingur þarf að bera allan kostnað sjálfur. Sama á við um fólk sem er að taka föst lyf. Það er viss hópur fólks sem getur ekki tekist á við óvænt útgjöld. Fólk ræður því ekki við að leysa út lyf ef það veikist af flensu eða læknir ávísar nýjum lyfjum.“

Það eru ekki bara sjúklingar sem hringja. „Læknar og félagsráðgjafar á sjúkrahúsum hringja iðulega í okkur í sambandi við útskriftir af sjúkrahúsum. Þegar læknar útskrifa fólk af sjúkrahúsum er því gert að taka þessi og þessi lyf og svo þegar fólk segist ekki eiga peninga til að leysa þau út er hringt í okkur,“ segir Vilborg.

Hjálparstarf kirkjunnar er með umfangsmikla innanlandsaðstoð við fátækt fólk. Stærsti útgjaldaliðurinn eru matarkortin. Í marsmánuði einum greiddi Hjálparstarf kirkjunnar 5 milljónir í mataraðstoð. Vilborg segir að útgjöld vegna matarkorta sé breytilegur milli mánaða. Aðstoð Hjálparstofnunar kirkjunnar sé ekki hugsuð sem föst framfærsluaðstoð og því sé ekki greitt inn á kortin þegar fólk er að fá barnabætur eða aðrar bætur frá ríkinu. Engar slíkar bætur eru greiddar í mars og því er það þungur mánuður fyrir Hjálparstarf kirkjunnar.

Páskasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar stendur enn yfir, en gíróseðlar hafa verið sendir í heimabanka fólks. Vilborg segist ekki hafa yfirlit yfir hversu miklu söfnunin hafi skilað, en hún segist hafa vonast eftir betri viðbrögðum

Aðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar einskorðast ekki við mataraðstoð, heldur er einnig veitt fjármálaráðgjöf, stuðningur vegna lyfjakostnaðar, skólagöngu og frístunda barna og ungmenna, einstaklings- og fjölskylduráðgjöf, fataúthlutun og ýmis námskeið til sjálfstyrkingar og til að auka hæfni í heimilishaldi.

Hægt er að hringja í söfnunarsíma 907 2002 (kr. 2.500), gefa á framlag.is eða leggja inn á söfnunarreikning: 0334-26-886 kt. 450670-0499.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert