Lífeyrissjóðirnir eru tilbúnir að koma að fjármögnun á smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju með kaupum á skuldabréfum, að sögn Arnars Sigurmundssonar, formanns Landssamtaka lífeyrissjóða.
Í fréttaskýringu um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að lífeyrissjóðir hafi verið í viðræðum við innanríkisráðuneytið, fulltrúa í sérfræðingahópi og undirbúningsnefnd um smíði ferjunnar.
„Það skiptir auðvitað öllu máli í því sambandi hvaða tryggingar væru lagðar fram sem væru þá væntanlega samningur þeirra sem ættu skipið við ríkið. Við sögðum að ef slíkar tryggingar yrðu lagðar fram og ávöxtunarkjör væru ásættanleg þá væri þetta eitthvað sem við værum tilbúin að skoða,“ segir Arnar.