Gestafjöldi Síldarminjasafnsins á Siglufirði sló öll fyrri met í fyrra, en tæplega 20.000 manns heimsóttu Síldarminjasafnið á síðasta ári, og er um að ræða 60% fjölgun frá árinu 2010. Auk þess greiddi safnið niður eftirstöðvar skulda sinna frá uppbyggingu Bátahússins og er nú skuldlaust. Þetta kemur fram á vefnum Sigló.is.
Á árinu 2011 var unnið að fjölmörgum verkefnum auk almenns reksturs. Bátasmíðaverkefni fór fram í Slippnum á haustdögum, Jónsmessuhátíð var haldin í júní, þónokkur viðgerð fór fram á Hlíðarhúsi og dyttað var að safnhúsunum.
Á árinu 2012 liggja fyrir fjölmörg verkefni, en mikilvægasta verkefni ársins er frágangur safnlóðarinnar. Miklar breytingar urðu á umhverfi safnsins er nýr vegur var lagður síðasta haust. Á vordögum verður hafist handa við smíði bryggjupalla milli safnhúsanna þriggja, auk þess sem unnið verður að bættu aðgengi og fegrun svæðisins.