Smærri útgerðir rakleitt á hausinn

Þorskveiðar
Þorskveiðar Mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Smærri útgerðir fara rakleitt á hausinn verði frumvörp ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða og veiðigjöld að veruleika. Þetta segir Unnsteinn Þráinsson, trillukarl á Hornafirði, í samtali við frétta- og upplýsingavefinn Ríki Vatnajökuls.

„Það gengur ekki að mjólka greinina alveg, það verður að vera hægt að endurnýja tæki og tól með eðilegum hætti [...] Þessar hugmyndir um að stórhækka veiðigjaldið upp úr öllu valdi gera það að verkum að dæmið gengur ekki upp hjá flestum,“ segir Unnsteinn í viðtalinu.

Unnsteinn gerir út línu- og handfærabátinn Sigga Bessa SF 97 og er veiðiréttur útgerðarinnar um 110 þorsígildistonn. Hann bendir á að samkvæmt frumvarpinu verði erfitt að skiptast á veiðirétti nema með verulegum kostnaði og óhagræði. Þetta geti komið niður á smærri útgerðum.

„Þeir sem hafa fjárfest í kvóta og skipum eru flestir mjög skuldugir. Sérfræðingar sem hafa tjáð sig um þessi mál virðast sammála um að minni útgerðirnar verði fyrir mestum skaða. Sumir sem ég hef talað við um þetta segja lítið annað að gera en að taka negluna úr og hoppa í land.“

Unnsteinn segir skjóta skökku við að tala um að gera eigi nýliðun í greininni auðveldari, á sama tíma og frumvörpin geri það að verkum að núverandi nýliðar verði fyrstir gjaldþrota. Flestir smábátaeigendur tali um það sem rothögg, verði frumvörpin að lögum.

Viðtalið má lesa í heild á vef Ríkis Vatnajökuls.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert