Vændi á Íslandi er umfangsmeira en flestir gera sér grein fyrir og fer að mestu leyti fram á netinu. Þetta segir sjónvarpsmaðurinn Sölvi Tryggvason, en hann setti auglýsingu á einkamálasíðu í nafni 18 ára gamallar stúlku sem leitaði skyndikynna.
Hann fékk stúlku síðan til að mæla sér mót við þá karlmenn sem svöruðu auglýsingunni og voru fundir þeirra teknir upp með falinni myndavél. Þar buðu mennirnir stúlkunni greiðslu gegn kynlífi.
Þetta kemur fram í þætti Sölva, Málinu, sem sýndur verður á Skjá Einum í kvöld. Þar er einnig rætt við 20 ára gamla stúlku sem stundaði vændi til að fjármagna kaup á fíkniefnum.
Að sögn Sölva eru engar nýlegar tölur til um umfang vændis, en það virðist ekki hafa minnkað eftir að skýrari lög voru sett varðandi það. Hann segir erfitt að sýna fram á tengsl súlustaða og vændis.