Æpandi eftirspurn eftir starfsfólki

Fjölga þarf útskrifuðu fólki úr verkfræði, tækni- og raunvísindanámi á Íslandi. Mikil tækifæri felast í þeim hluta atvinnulífsins sem er kallaður hátæknigeirinn, en nú þegar er æpandi eftirspurn fyrirtækja eftir starfsfólki sem hefur aflað sér raungreina- og tæknimenntunar á háskólastigi. Hér er m.a. um að ræða fyrirtæki sem tengjast tölvu- og hugbúnaðargeiranum, heilbrigðistækni, lífvísindum, umhverfistækni og upplýsingatækni. Takist skólakerfinu ekki að svara þessari eftirspurn er hætta á að fyrirtækin muni enn frekar en nú byggjast upp að mestu erlendis en Ísland stendur aftarlega í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að tæknimenntun fólks á aldrinum 25-35 ára. 

Þetta kemur m.a. fram í nýju riti Samtaka atvinnulífsins sem kemur út á aðalfundi SA á morgun en í því er að finna beinar tillögur að uppfærslu Íslands sem miða að því að styrkja menntakerfið og efla atvinnulífið með aukinni samvinnu skóla og fyrirtækja. Ritið byggir á umræðu um 100 stjórnenda úr íslensku atvinnulífi en fyrirtækin og samtök í atvinnulífinu kalla eftir sameiginlegri stefnumótun með stjórnvöldum um framtíð og þróun menntakerfisins

 Það er kostnaðarsamt fyrir fyrirtæki að flytja inn fólk sem getur aðlagast menningu og efnahagslegum skilyrðum hér á landi. Fyrirtækin munu líta á heiminn sem markaðssvæði fyrir afurðir sínar og vinnuafl, nýta tæknina og taka upp víðtækt samstarf án tillits til staðsetningar. Fyrirtækin verða að byggjast upp með viðvarandi þekkingu þó að fólk komi og fari og við það verður menntakerfið að ráða.  Það getur því verið kostur að bjóða erlendum námsmönnum aðgang að háskólanámi í verkfræði og tæknigreinum og tryggja þeim um leið aðgang að íslenskum vinnumarkaði ef ekki tekst að breyta skólakerfinu þannig að það uppfylli þarfir atvinnulífsins, segir í ritinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert