Breytt aftur strax eftir kosningar?

mbl.is/Hjörtur

Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, mælti í dag fyrir þingsályktunartillögu um breytingar á stjórnarráði Íslands en þar er meðal annars gert ráð fyrir að ráðuneytum verði fækkað frá því sem nú er úr tíu ráðuneytum í átta. Þá er kveðið á um breytingar á heitum ráðuneyta.

Í stað iðnaðarráðuneytis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, umhverfisráðuneytis, efnahags- og viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis komi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði forsætisráðherra að því hvers vegna ekki hafi verið haft samráð við stjórnarandstöðuna um umræddar breytingar á stjórnarráðinu og þannig tryggt að samstaða væri um þær. Þá ekki síst í ljósi þess að stutt væri í kosningar og að það gæti orðið fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að breyta þessu til baka.

Jóhanna sagði í svari sínu til Gunnars að umræddar breytingar hefðu verið lengi til umræðu og í meðförum þingsins og að í þeirri vinnu hefðu sjónarmið stjórnarandstöðunnar komist að. Sagði hún að í fáum málum hefði verið haft eins mikið samráð og í breytingum á stjórnarráðinu.

Gunnar vitnaði ennfremur síðar í umræðunni til ályktunar frá Evrópuþinginu fyrr á þessu ári um umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu þar sem fagnað hefði verið breytingum á stjórnarráðinu og fækkun ráðuneyta. Sagði hann ljóst af því að ein hlið breytinganna væri aðlögun að ESB vegna umsóknarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert