Felur ekki í sér auknar heimildir

Lögreglan hefur eftir fremsta mætti reynt að sporna við uppgangi …
Lögreglan hefur eftir fremsta mætti reynt að sporna við uppgangi vélhjólasamtaka hér á landi. mbl.is/Júlíus

Miklar efasemdir koma fram í umsögnum ríkissaksóknara, lögreglu höfuðborgarsvæðisins og Ákærendafélags Íslands um frumvarp innanríkisráðherra um forvirkar rannsóknarheimildir. Lagst er gegn frumvarpinu í óbreyttri mynd, enda felist ekki í því neinar auknar heimildir.

Ríkissaksóknari telur mjög brýnt að aflað verði upplýsinga um lagaumhverfi og framkvæmd í Danmörk, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð hvað varðar heimildir lögreglu og ákæruvalds á sviði forvirkra rannsóknarheimilda og aðgerðir sem beint er gegn skipulögðum brotasamtökum. Þær upplýsingar skuli svo notaðar til undirbúnings heildstæðrar löggjafar hér á landi um efnið.

Aðrar tillögur þarf til

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu bendir á það í sinni umsögn að ákvæðið sem bæta á í lög um meðferð sakamála, og veiti lögreglu heimild til að hefja lögreglurannsókn, sé með öllu óþarft, enda hafi lögregla þegar umræddar heimildir sem lýst er í frumvarpinu.

Mat embættisins er að frumvarpið feli ekki í sér auknar rannsóknarheimildir fyrir lögreglu frá gildandi lögum. „Brýnt er með hliðsjón af þróun mála undanfarin misseri að brugðist verði við með tillögum sem raunverulega fela í sér auknar rannsóknarheimildir fyrir lögreglu.“

Ófullnægjandi útgangspunktur

Þá bendir stjórn Ákærendafélags Íslands á það einnig, að þær heimildir sem veita á lögreglu með frumvarpinu séu þegar fyrir hendi.

Ákærendafélagið leggst eindregið gegn því að frumvarpið verði að óbreyttu að lögum. Meðal annars megi færa fyrir því rök að með samþykkt frumvarpsins verði lögreglu óheimilt að hefja rannsókn á tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots eða manndráps ef það sé ekki liður í skipulagðri glæpastarfsemi. „Slík staða væri algjörlega óásættanlegt,“ segir í umsögninni.

Þá segir að forvirkar rannsóknarheimildir verði að ná til hvers kyns atferlis sem talið er ógna almenningi, öryggi ríkisins og sjálfstæðis þess. „Slíkar heimildir þurfa að taka til einstaklings eða hóps manna sem talinn er eða taldir eru ógna öryggi ríkisins eða einstaklinga, svo sem öfgahópa eða einstaklinga sem telja má hættulega vegna sérstaks hugarástands.“

Að því sögðu telur Ákærendafélagið að ófullnægjandi útgangspunkt að miða við skipulögð brotasamtök.

Skjáskot af vefsvæði norsku vélhjólasamtakanna Outlaws, en talið er að …
Skjáskot af vefsvæði norsku vélhjólasamtakanna Outlaws, en talið er að íslensku samtökin séu sprottin þaðan. Mynd/outlawsmc.no
Liðsmaður Bandidos.
Liðsmaður Bandidos.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert